5.12.2018 10:32

Miðflokksformaður í kröppum dansi

Tilgangur fundarins var að vinna að því að forystumenn þingflokks Fólks flokksins gengu til liðs við Miðflokkinn.

Fjórir úr forystusveit Miðflokksins: formaður, 1. varaformaður og formaður þingflokks, 2. varaformaður og varaformaður þingflokksins sátu fundinn þriðjudaginn 20. nóvember, sem nú er kenndur við Klaustur-barinn, með formanni og varaformanni þingflokks Flokks fólksins.

Tilgangur fundarins var að vinna að því að forystumenn þingflokks Fólks flokksins gengu til liðs við Miðflokkinn. Var þingflokksformanninum boðið að taka við þingflokksformennsku í Miðflokknum enda yrði sá sem þar sæti aðstoðarmaður flokksformannsins eða jafnvel sendiherra.

Vegna þess hve ruddalega var rætt um fundarefnið hvarf það í skuggann. Fundarmenn láta sem um drykkjuraus hafi verið að ræða. Sjálft tilefni fundarins gleymist.

Það blasti hins vegar strax við Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, enda brást hún við af hörku og rak samsærismennina úr flokki sínum. Þeir sigldu inn á þing í skjóli hennar en héldu upp á ársafmæli þingsetu sinnar með því að leggja á ráðin um að svíkja hana. Starfa þeir nú munaðarlausir utan flokka á alþingi.

54E54978D5369B4B8E0A1085B190F3FBD403BEC901AED50FD11A2B1DEBE784C6_713x0Rætt var við Sigmund Davíð í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Vísir/Vilhelm

Forystumenn þingflokks Miðflokksins sáu sér þann kost vænstan að hverfa af þingi í launalaust leyfi. Það var vegna orðbragðsins sem þeir notuðu og fyrirlitningarinnar sem þar birtist.

Siðanefnd vinnur nú á vegum forsætisnefndar alþingis. Hún leggur mat á það sem gerðist á fundinum 20. nóvember með siðareglur alþingismanna að leiðarljósi. Varla verður það talið ósiðlegt að forystumenn flokka komi saman og „plotti“. Skárra væri það. Slíkt er ríkur þáttur í öllu félagsstarfi hvort heldur á stjórnmálavettvangi eða annar staðar. Athygli síðanefndarinnar beinist að öðru.

Viðbrögð formanns Miðflokksins eru á eina lund: hann reynir að drepa málin á dreif. Í morgunþættinum í Bítinu á Bylgjunni í dag (5. desember) sagði hann til dæmis:

„Ég skal segja þér bara fyrir mitt leyti að ef það er vilji [siða]nefndarinnar að allt sem menn hafa sagt í einkasamtölum um félagann, sem eru hlutir sem eru fyrir neðan allar hellur, komi fram þá skal ég mæta fyrir nefndina og lýsa því nákvæmlega.“

Flokksformaðurinn veit að þetta vakir ekki fyrir siðanefndinni og ekki heldur að nefndin vilji allar upptökur sem menn eiga hugsanlega af sambærilegum fundum þingmanna. Nefndin kannar það sem gerðist að kvöldi 20. nóvember 2018 á fundi sem flokksformaðurinn stýrði en lét að eigin sögn undir höfuð að slíta þegar hann fór úr böndunum.

Við álag af þessu tagi kýs flokksformaðurinn oft að fara um víðan völl. Hvort það dugar honum nú skýrist við framvindu málsins. Verulega er gengið á innstæðuna.