28.7.2019 10:07

Mestu fjöldamótmæli í Moskvu frá árinu 2012

Óeirðalögregla í átakaklæðum lamdi mótmælendur með kylfum við ráðhúsið og einnig þegar þeir fóru á milli og sungu slagorð eins og: Rússland án Pútíns!

Stjórnmálaskýrendur eru sammála um að harkan sem lögreglan í Moskvu beitti gegn mótmælendum þar laugardaginn 27. júlí hafi verið úr öllu hófi miðað við tilefnið. Nokkur þúsund manns komu saman við ráðhús rússnesku höfuðborgarinnar til að láta í ljós óánægju með að andstæðingar Valdimirs Pútíns Rússlandsforseta fengju ekki að bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum 8. september. Talið er að tæplega 1.400 manns úr hópi mótmælenda hafi verið handtekin.

Óeirðalögregla í átakaklæðum lamdi mótmælendur með kylfum við ráðhúsið og einnig þegar þeir fóru á milli og sungu slagorð eins og: Rússland án Pútíns!

Af hálfu Evrópusambandsins og alþjóðlegu mannréttindasamtökunum Amnesty hefur framgöngu lögreglunnar verið lýst sem „óhóflegri“ og „stjórnlausri“ þeir hafi verið barðir eða handteknir sem urðu á vegi lögreglunnar án tillits til þess hvort þeir voru þátttakendur í aðgerðum gegn stjórnvöldum eða ekki.

D05FE818-3312-4CFE-B445-0B9E0BF11032_w650_r1_sAleksandra Parushina, borgarfulltrúi í stjórnarandstöðuflokknum Réttlátt Rússland, var lamin í höfuðið af óeirðalögreglu í Moskvu þegar hún reyndi að komast að ráðhúsi höfuðborgarinnar.

Borgarfulltrúar eru 45 í Moskvu (23 í Reykjavík) og meirihluti þeirra er í flokki Pútíns, Sameinuðu Rússlandi. Fylgi við meirihlutann minnkar jafnt og þétt. Stjórnarandstæðingar segja bannið við framboðunum af þeirri tylliástæðu að meðmælendalistar hafi ekki verið réttir ekki annað en kosningahræðslu og tilburði til að herða enn á einræðisstjórn í nafni Pútíns.

Tölur eru á reiki um fjölda þátttakenda í aðgerðunum 27. júlí en viku fyrr, laugardaginn 20. júlí, tóku um 20.000 manns þátt í sambærilegum aðgerðum. Eftir þær hertu yfirvöld á hótunum í garð þeirra sem dirfðust að láta að sér kveða á götum úti án leyfis þeirra og nokkrir forystumenn stjórnarandstöðunnar voru teknir fastir, þar á meðal Aleksei Navalníj, þekktastur í hópi þeirra sem var dæmdur miðvikudaginn 24. júlí til að sitja 30 daga í fangelsi. Hann segir að ekki verði fallið frá kröfum á hendur stjórnvöldum fyrr en stjórnarandstæðingar fá að leggj fram lista í kosningunum sunnudaginn 8. september.

Þetta er mestu mótmælaaðgerðir í Moskvu frá því árið 2012 þegar spenna sem hafði myndast mánuðum saman braust út á torgi í höfuðborginni daginn áður en Pútin var að nýju settur í embætti forseta eftir að hafa setið sem forsætisráðherra í eitt kjörtímabil – hann var fyrst kjörinn forseti árið 2000.

Árið 2014 sló Pútín sér upp meðal Rússa og blés þeim þjóðernisanda í brjóst þegar hann innlimaði Krímskaga og hóf hernað gegn Úkraínu. Síðan hafa Rússar verið beittir refsiaðgerðum af hálfu stjórnvalda á Vesturlöndum auk þess sem Pútín bannaði innflutning á matvælum, meðal annars fiski frá Íslandi.

Þegar þetta er skrifað hefur Pútín ekki sagt neitt um atburðina í Moskvu 27. júlí, síðast fréttist af honum á ferð í dvergkafbáti skammt frá St. Pétursborg þar sem hann skoðaði gamalt skipsflak á hafsbotni.