8.12.2024 11:00

Messað að nýju í Notre-Dame í París

Fyrir Guðs mildi björguðust gluggar og ómetanleg listaverk úr eldinum. Þá hafa þeir sem komu að verkinu ekki hikað við að setja svip nútímans á margt sem blasir við augum þess sem lítur til altarisins, helgasta hluta kirkjuhússins.

  • IMG_1508

Athöfnin í Notre-Dames í París í gær (7. desember) þegar dómkirkjan var opnuð að nýju, endurgerð eftir eldsvoðann 15. apríl 2019, var hátíðleg og söguleg. Frakkar kunna að skipuleggja viðburði á þann hátt að öllu er til skila haldið, aðskilnaði ríkis og kirkju, virðingu fyrir sögunni og þakklæti til þeirra sem unnu afrekið sem birtist í endurreisninni á svo skömmum tíma.

Inn í útsendingu France 2 frá athöfninni var skotið svipmyndum sem sýndu að við hlið stórvirkra tækja var gripið til minnstu pensla og smáverkerkfæra listamanna til að allir dýrgripir yrðu sem upprunalegastir að allri gerð. Fyrir Guðs mildi björguðust gluggar og ómetanleg listaverk úr eldinum. Þá hafa þeir sem komu að verkinu ekki hikað við að setja svip nútímans á margt sem blasir við augum þess sem lítur til altarisins, helgasta hluta kirkjuhússins. Þá hafa messuklæði biskupa og presta yfir sér léttan og litríkan blæ. Sést það enn betur nú að morgni sunnudagsins 8. desember þegar messað er í fyrsta sinn í kirkjunni eftir viðgerðina.

Messan er sýnd á France 2 og sitja frönsku forsetahjónin á fremsta bekk eins og þau gerðu við athöfnina löngu í gær. Þar fagnaði Laurent Ulrich erkibiskup orgelinu en í dag vígði hann nýja altarið sem hannað var af franska listamanninum Guillaume Bardet. Smurði biskupinn altarið með heilagri olíu og síðan var kveikt á reykelsi á hornum þess.

Hér eru nokkrar skjámyndir frá messunni í morgun:

IMG_1492IMG_1494IMG_1498IMG_1499_1733655461591IMG_1501IMG_1502IMG_1508