Merkel sýnir Boris skilning
Stöðunni milli Breta og ESB hefur verið líkt við störukeppni. Nú velta menn því fyrir sér hvort ESB hafi blikkað.
Að Angela Merkel sótti fund norrænu forsætisráðherranna hér á landi í upphafi viku þegar hún hittir Boris Johnson í Berlín og fer til Biarritz í Frakklandi á G7-leiðtogafundinn segir meira en það sem sagt var á blaðamannafundum á Þingvöllum eða í Viðey.
Merkel gerir sér grein fyrir að norðlæga víddin
innan ESB missir mikið með brottför Breta. Hvort sem Norðurlöndin eru öll innan
ESB eða ekki hafa þau sitt að segja á evrópskum vettvangi. Hér á landi eru þeir
einfaldlega sjálfum sér verstir sem tala niður áhrif Íslands innan EES í stað
þess að beita sér fyrir að tækifærin til áhrifa séu nýtt til hins ýtrasta.
Boris Johnson og Angela Merkel á blaðamannafundi í Berlín 21. ágúst 2019.
Daginn (21. ágúst) eftir að Merkel fór frá Íslandi ræddu þau Boris Johnson saman og á blaðamannafundi þeirra sýndi Þýskalandskanslari hve lausnamiðuð (pragmatísk) hún er. Boris Johnson ítrekaði að hann gæti alls ekki sætt sig við að írski varnaglinn (e. backstop) yrði hluti viðskilnaðarskilmálum Breta við ESB. Varnaglinn er settur til að tryggja Írska lýðveldinu að ekki verði sett upp tolllandamæri gagnvart Norður-Írlandi í framíðarsamningi Breta við ESB. Merkel svaraði og sagði, að hefði Boris aðra lausn fengi hann 30 daga til að undirbúa og kynna hana.
Merkel gerir sér grein fyrir að af pólitískum, hernaðarlegum og efnahagslegum ástæðum er mikilvægt að rækta náin tengsl við Breta hvað sem líður brexit.
Frakkar líta á sig sem forystuþjóð suðlægu ríkjanna innan ESB. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur því annað sjónarhorn en Angela Merkel. Ólíklegt er að Macron gefi Boris Johnson mikið svigrúm þegar þeir hittast á fundi í París í dag (22. ágúst). Macron gengur þó varla gegn því sem Merkel sagði um 30 daga frestinn fyrir Johnson.
Nú reynir á hvort bresku ríkisstjórninni tekst að finna viðunandi lausn á landamæravandanum. Í leiðara The Telegraph í dag segir að framganga Merkel á blaðamannafundinum með Johnson hafi verið svo andstæð neikvæðri afstöðu harðlínumanna í Brussel að álitsgjafar sem skrifi og tali í anda embættismanna án lýðræðislegs umboðs frá kjósendum hrokkið í kút og ekki trúað sínum eigin eyrum.
Stöðunni milli Breta og ESB hefur verið líkt við störukeppni. Nú velta menn því fyrir sér hvort ESB hafi blikkað. Í Frakklandi segja menn að Merkel hafi ekki breytt um stefnu. Nú verði Bretar að kynna lausn. Þetta sé vandi þeirra en ekki ESB.
Það vakti hlátur meðal blaðamanna á fundinum í Berlín þegar Boris Johnson svaraði orðum Merkel með því að segja á þýsku með enskum hreim: Wir schaffen das! (Okkur tekst það!)
Hann greip til alræmdra orða sem Merkel notaði þegar hún sætti þungri gagnrýni árið 2015 fyrir að opna þýsku landamærin fyrir straumi flótta- og farandfólks. Í Die Welt að greina hefði mátt brosgrettu á Merkel.