2.7.2018 10:20

Merkel enn og aftur í ólgusjó

Allt getur gerst í þýskum stjórnmálum vegna framgöngu Seehofers. Líklega hefur hann þó gengið fram af of mörgum til að eiga sér viðreisnar von.

Einkennilegt er að fylgjast með framgöngu Horsts Seehofers, innanríkisráðherra Þýskalands og leiðtoga Kristilega sósíalsambandsins (CSU) í Bæjaralandi. Málstaður hans um hert landamæraeftirlit til að hindra ferðir farand- og flóttafólks til og í Evrópu naut yfirgnæfandi stuðnings í leiðtogaráði ESB aðfaranótt föstudags 29. júní. Hann sætti sig síðan ekki við hvernig Angela Merkel kanslari túlkaði niðurstöðu fundarins og hótaði að kvöldi sunnudags 1. júlí að segja af sér ráðherraembætti og forystu hjá CSU. Var það túlkað á þann veg að hann mundi hætta en að morgni mánudags 2. júlí lá fyrir að hann væri hættur við að hætta og mundi ræða við Merkel í Berlín kl. 17.00 að þýskum tíma, 15.00 ísl. tími.

44249530_303Horst Seehofer og Angela Merkel.

Efnislega snýst deilan um hvort Seehofer geti lokað landamærum Þýskalands fyrir nánar skilgreindum hópi hælisleitenda. Hvað sem líður stuðningi við þetta sjónarmið Seehofers vegur hann sífellt minna gagnvart andúðinni á aðferðinni sem hann beitir. Blöðin segja:  

Spiegel: „Verði hann áfram innanríkisráðherra er trúverðugleiki hans horfinn. Segi hann af sér gerist það einnig.“

Welt: „Seehofer dregur í land kl. 01.00 – og upplausnin er algjör.“

Süddeutsche Zeitung: „Dagar Seehofers sem leiðtoga CSU eru taldir ...Pólitískt lokamarkmið Seehofers er: Falli ég, fellur Merkel líka.“

Vissulega er ekki unnt að útiloka að Angela Merkel falli enda er vaxandi „pirringur“ í hennar garð í Kristilega demókrataflokknum (CDU). Hitt er ljóst að hjá forystusveit CSU er ekki áhugi á að slíta samstarfinu við CDU sem staðið hefur frá 1949 og tryggt flokknum  meiri áhrif í þýskum stjórnmálum en stærð hans í þýsku flokkaflórunni.

Að morgni mánudags 2. júlí ítrekaði Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, við fjölmiðla: „Við viljum hvorki yfirgefa sambandsstjórnina né segja skilið við CDU.“ Hann sagði að hótun Seehofers um afsögn hefði komið sér í opna skjöldu.

Wolfgang Schäuble, forseti Bundestag, neðri deildar þýska þingsins, er reyndasti stjórnmálamaður CDU. Hann fór ósáttur úr embætti fjármálaráðherra þegar Merkel myndaði fjórðu stjórn sína 14. mars 2018. Nú segir Schäuble að CDU sé „á brúninni“.

Allt getur gerst í þýskum stjórnmálum vegna framgöngu Seehofers. Líklega hefur hann þó gengið fram af of mörgum til að eiga sér viðreisnar von.