2.9.2024 11:04

Menningarsumri lokið

Við gerðum þetta ekki nema að hafa ánægju af því og vegna þess hve við fáum hlýjar viðtökur hjá þeim sem við biðjum um að koma fram og hjá þeim sem sækja viðburðina.

Lokaviðburður gleðistunda sumarsins í Hlöðunni á Kvoslæk var sunnudaginn 1. september. Við Rut hófum að nota þennan húsakost okkar fyrir tónleika og fyrirlestra árið 2011. Viðburðirnir hafa verið misjafnlega margir ár hvert, flestir sumarið 2018. Þá voru þeir átta, þar af fjórir fyrirlestrar tengdir 100 ára afmæli fullveldisins.

Við gerðum þetta ekki nema að hafa ánægju af því og vegna þess hve við fáum hlýjar viðtökur hjá þeim sem við biðjum um að koma fram og hjá þeim sem sækja viðburðina, legðu engir leið sína hingað til að njóta þess sem er í boði yrði sjálfhætt.

Í gær frumflutti Rut fiðlukonsert eftir John A. Speight sem hann samdi sérstaklega fyrir hana og 14 manna strengjasveit, Hjörtur Páll Eggertsson stjórnaði en Pétur Björnsson var konsertmeistari. Fyrir utan frumflutninginn lék hljómsveitin Divertimento eftir Mozart. Fiðlukonsertinn var tvífluttur og kunnu áhorfendur vel að meta það eins og þeir sögðu þegar við buðum þeim konsertkaffi fyrir heimferð. Páll Sveinn Guðmundsson hljóðritaði tónleikana á sinn fagmannlega hátt.

Þetta framtak hefur verið vel metið í áranna rás af Sunnlendingum. Við höfum bæði fengið viðurkenningu frá sveitungum okkar hér í Fljótshlíðinni og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) sem stendur auk þess að baki Uppbyggingarsjóði Suðurlands sem styrkir menningarstarf. Það gerir sveitarstjórn Rangárþings eystra einnig. Hvatningin sem felst í slíkum stuðningi er ómetanleg.

Allir sem koma að slíku menningarstarfi vita að það er meira en að segja það til dæmis að hóa saman 14 manna frábærri strengjasvseit og stefna henni saman í hlöðu um 120 km frá Reykjavík. Hér eru nokkrar myndir frá tónleikunum í gær:

IMG_0501Við upphaf tónlkeikanna.

IMG_0497Hluti tónleikagesta.

Screenshot-2024-09-02-at-10.13.09Í lok tónleika, Hjörtur Páll Eggertsson hljómsveitarstjóri lengst til hægri. (Mynd: Birgir Þórarinsson.)

Screenshot-2024-09-02-at-10.12.21John A. Speight þakkar Rut og hljóðfæraleikurunum. (Mynd Birgir Þórarinsson.)