6.1.2018 10:46

Mengun skapar enn vanda í Reykjavík

Mengunarslysinu í hafinu átti að leyna en svifrykinu verður ekki sópað undir teppi borgarbúa. Hreinsun þess er í verkahring borgaryfirvalda, á ábyrgð borgarstjórnar.

Í Morgunblaðinu í dag (6. janúar) segir:

„Loftgæðamælingar í Reykjavík sýndu afar slæm loftgæði víðsvegar um borgina í gær. Mældist svifryk 265 µg/m³ (míkrógrömm af svifryki í rúmmetra) við Grensásveg og 208 µg/m³ við Hringbraut og 136 µg/m³ við Eiríksgötu. Til samanburðar var meðaltal svifryks í Reykjavík fyrir árið 2016,17 µg/m³. Voru allir staðirnir rauðmerktir á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Í útskýringu með merkingunni segir að einstaklingar með ofnæmi og/eða alvarlega hjarta- eða lungasjúkdóma ættu að forðast að vera úti þar sem hætta er á mikilli mengun (þ.e. í nálægð við miklar umferðargötur). Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands, segir í fréttatilkynningu til Morgunblaðsins að fyrir ári hafi félagið sent ábendingar til Reykjavíkurborgar varðandi umhverfistengda þætti sem bætur mættu fara. „Þar nefndi ég hreinsun á götum sem er gríðarlega mikilvægur þáttur,“ segir Fríða og bætir við að hvorki hún né félagið hafi fengið viðbrögð við þessu frá borginni.“

Þetta svifryk bætist ofan á mengunina sem rekja má til flugelda um áramótin. Borgarstjóri segir að ráðist verði gegn rykinu eftir helgi en um helgina á að rigna og kann það að binda rykið.


Því ber að fagna að borgarbúar eru betur upplýstir um þessa rykmengun en sjávarmengunina sl. sumar þegar beinlínis var tekin ákvörðun um að segja ekki frá neinu.

Í Morgunblaðinu í dag segir einnig:

„Fundur forsætisnefndar fór fram í gær þar sem m.a. var ákveðið að setja mengunarvalda í borginni á dagskrá borgarstjórnarfundar á þriðjudaginn. Spurð hvort götuhreinsanir verða ræddar í því samhengi segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, að öllu verði velt upp á fundinum. „Það er mín tilfinning og við eigum alltaf að vera skoða þetta. Það er líka auðvitað á ábyrgð borgarbúa á sínu nærumhverfi að þrífa eftir sig eftir flugeldana og ekki bara bíða eftir því að það komi einhver hreinsunarbíll. Það verður allt undir, bæði ábyrgð stjórnvalda og líka þeirra sem að búa í þessari borg.“

Þarna er boðað að rætt verði um „mengunarvalda í borginni“ á borgarstjórnarfundi nk. þriðjudag. Þegar blaðamaður spyr hvort rætt verði um mótvægisaðgerðir hörfar forseti borgarstjórnar og beinir athygli að borgarbúum sjálfum, þeir eigi ekki að bíða eftir „einhverjum hreinsunarbíl“. Forsetinn talar þó aðeins um eftirstöðvar flugelda – en á að skilja orð hennar einnig á þann veg að borgarbúar eigi að sópa rykið af götunum?

Mengunarslysinu í hafinu átti að leyna en svifrykinu verður ekki sópað undir teppi borgarbúa. Hreinsun þess er í verkahring borgaryfirvalda, á ábyrgð borgarstjórnar.