9.10.2017 11:30

Meiri hagsæld af landbúnaði en háum sköttum

Skörp sýn á gildi íslensks landbúnaðar í andstöðu við ofurtrú of margra stjórnmálaforingja á hærri skatta og aukin ríkisumsvif.

Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur með MCF í fjármálum fyrirtækja og 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði, birtir grein í Morgunblaðinu í dag (9. okt.) þar sem hann líkir íslenskum landbúnaði við Marel og Össur á upphafsárum þessara fyrirtækja sem síðan hafa náð glæsilegum alþjóðlegum árangri. Í greininni segir Albert Þór einnig:

„Íslenskur landbúnaður á eftir að verða ein mikilvægasta atvinnugrein Íslands á næstu áratugum þar sem vatn, endurnýjanleg orka og lítil mengun munu leika lykilhlutverk. Einnig hafa forsvarsmenn leiðandi lágvöruverslana talað niður íslenskan landbúnað og landbúnaðarvörur í skjóli viðskiptafrelsis í stað þess að lækka álagningu sína á innfluttar vörur enn frekar. Samt eru sömu lágvöruverslanir með 50% hærra verð en sambærilegar verslanir í Bandaríkjunum eins og Wal-Mart þegar landbúnaðarvörur eru undanskildar. Þess vegna ber að fagna komu Costco til landsins sem mun hafa langvarandi áhrif á íslenska verslun. Á undanförnum sjö árum hafa ríkisútgjöld aukist um 170 milljarða án þess að framleiðni eða virðisaukning hafi átt sér stað hjá ríkinu. Forgangsmál hjá sumum stjórnmálaflokkum eru hælisleitendur, lögleiðing kannabis, fjölgun ríkisstarfsmanna og óheftur innflutningur á ríkisstyrktum landbúnaðarafurðum frá Evrópu. Ekki er mikið að frétta af hagræðingu hjá mörgum ráðherrum og stjórnmálamönnum sem hafa íslenska bændur sem skotmark í stað þess að hagræða í ráðuneytum sínum og stofnunum ríkisins. Það væri tilbreyting að heyra af 100 milljarða hagræðingu í rekstri ríkisins. Einkavæðing á RÚV myndi spara strax 5-6 milljarða á ári. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að fá hugmyndir að 15-20% lækkun ríkisútgjalda og meiri framleiðni í rekstri ríkisins. Það þarf einungis vilja til að framkvæma þær aðgerðir.“

Þetta er skarplega orðuð vörn fyrir íslenskan landbúnað. Þarna birtist viðhorf sem á brýnt erindi í stjórnmálaumræður í landinu. Þjóðinni verður ekki best borgið með sem flestum ríkisstarfsmönnum. Á þann veg nálguðust þó flestir forystumenn stjórnmálaflokkanna 12 sem hittust í sjónvarpssal að kvöldi sunnudags 8. október úrlausn mála: ekkert ætti eða mætti hrófla við ríkiskerfinu, aðeins yrði að moka auknu fé í það.

Fr_20171008_070555_9Þessi mynd birtist á ruv.is þar sem opnaður hefur verið kosningavefur. Víða um heim gagnrýna fjölmiðlar á einkamarkaði sókn ríkismiðla inn á netið - þeir skapi þar ójafna samkeppnisstöðu í skjóli nefskatta eða afnotagjalda.

Þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður höfuðflokks skattheimtunnar, VG, er spurð hvernig hún ætlar að ná í 50 til 80 milljarða nýja skatta á ári fer hún undan í flæmingi. Sé rétt eftir tekið heita fyrirhugaðar skattahækkanir VG nú „hliðrun“ innan skattkerfisins. Taki maður hlut og færi hann hefur maður hliðrað. Með öðrum orðum það á að skilja orð VG-manna þannig að þeir ætli að ná í þessar auknu tekjur með tilfærslu innan skattkerfisins. Hver í ósköpunum trúir því? Varla þeir sjálfir? – Þeir vita betur en vilja ekki segja hvað fyrir þeim vakir af því að kosið verður eftir þrjár vikur. Þetta er skipulegasta þöggun kosningabaráttunnar.