21.9.2023 8:49

Medea í Madrid

Sýningunni var mjög vel fagnað en þar mátti vel sjá yfir hvílíkum töfrum fullkomin óperuhús búa.

Teatro Real, Konunglega leikhúsið, sem hýsir óperuna í Madrid á sér sögu frá 1850 þegar byggingin var reist andspænis konungshöllinni. Á árunum sem liðin eru hefur byggingin gengið oftar en einu sinni í endurnýjun lífdaga.

Húsinu var lokað árið 1925 vegna skemmda á því þegar unnið var við gerð jarðlestar í borginni. Það var ekki fyrr en árið 1966 sem það var opnað að nýju og þá sem tónleikasalur. Árið 1991 var hafist handa við endurgerð þess sem óperuhúss og var það loks opnað 11. október 1997. Húsið tekur um 1.800 gesti og er sviðsbúnaður mjög fullkominn eins og sjá má á uppfærslunni á Medeu eftir Luigi Cherubini sem frumsýnd var nú 19. september.

Óperuhúsið var þéttsetið á annarri sýningu óperunnar 20. september en þá söng spænska sópransöngkonan Saioa Hernández (f. 1983) kröfuhart hlutverk Medeu. Hún hóf söngferil sinn í Madrid en hefur áunnið sér heimsathygli meðal annars á Scala-óperunni í Mílanó. Var henni vel fagnað í lok sýningarinnar en Maria Callas endurvakti áhuga óperuunnenda á þessu dramatíska verki á sjötta áratugnum.

Það var frumsýnt í París 1797 við dræmar undirtektir en í sögubókum segir að frægasta dæmið um endurnýjun lífdaga þess á 20. öldinni megi rekja til sýningar í Flórens árið 1953 þar sem Vittorio Gui stjórnaði flutningi óperunnar með Mariu Callas í aðalhlutverki sem sagt er að hún hafi lært og æft á einni viku. Uppfærslan hlaut svo mikla athygli að hún var flutt í Scalaóperuna og þar hljóp Leonard Bernstein í skarðið sem stjórnandi.

Í Madrid er hljómsveitarstjóri Bretinn Ivor Bolton (f. 1958) og Spánverjinn Paco Azorin (f. 1974) færði upp verkið í nútímalegum búningi en það er reist á harmleik eftir gríska skáldið Evripídes, miskunnarlausu verki um ástir, afbrýðissemi, galdra og óhugnanlega grimmd.

Sýningunni var mjög vel fagnað en þar mátti vel sjá yfir hvílíkum töfrum fullkomin óperuhús búa. Að ímynda sér að eitthvað sambærilegt rísi í Reykjavík er fjarlægur draumur hvað sem líður óljósum hugmyndum um þjóðaróperu. Sumt verður ekki séð nema í útlöndum. Hér eru nokkrar myndir frá mögnuðu kvöldi:

IMG_8152Óperuhúsið í Madrid var upphaflega reist andspænis konungshöllinni árið 1850,

IMG_8173Anddyrið er glæsilegt.

IMG_8177Salurinn tekur um 1800 manns í sæti.

IMG_8182Sviðið er stórt og hópurinn sem þar kom fram stór.

IMG_8188

   Saoia Hernández tekur á móti fögnuði áheyrenda.