24.9.2021 12:17

Með bændum í Miðfirði

Í ráðherratíð Kristjáns Þórs hafa allar umræður um landbúnaðarmál snúist til betri vegar og gróska setur svip á dreifbýli landsins.

Í gær (23. september) skrapp ég norður í Miðfjörð og tók þátt í fundi um landbúnaðarstefnuna Ræktum Ísland! með Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Haraldi Benediktssyni alþingismanni. Fundurinn var haldinn í glæsilegu Hóteli Laugarbakka. Það er í húsi sem upphaflega var reist af stórhug sem grunnskóli á síðustu áratugum 20. aldar en hefur nú verið myndarlega endurnýjað. Þar var opnað hótel með góðum veitingastað árið 2016. Þjónusta er veitt allt árið og sigldi hún af stað af miklum krafti í sumar þegar losaði um ferðahömlur. Einkunnin sem hótelið fær á Tripadvisor sýnir það í hæsta gæðaflokki og sannreyndi ég það. Hótelið kynnir sem gististað miðja vegu milli Reykjavíkur og Akureyrar – 193 km eru til Reykjavíkur og 198 km til Akureyrar.

242656921_584859192947011_8728066030321579555_nÍ fundarsalnum á Laugarbakka í Miðfirði 23. september 2021 með Kristjáni Þór Júlíussyni og Haraldi Benediktssyni. (Mynd;: Magnús Magnússon.)

Fundurinn var vel sóttur í stórum sal hótelsins sem reistur var til íþrótta. Nú flytur skólabíll börn í grunnskóla á Hvammstanga og sveitarfélagið dafnar vel og er rekið af bjartsýni. Þar er vel hugað að allri þjónustu við börn í almennu skólastarfi og tónlistarnámi sem opið er öllum eins og íþróttastarfsemin.

Hvarvetna um landið blasir við aukin gróska og framtakssemi. Þetta var síðasti opinberi fundurinn þar sem Kristján Þór flutti ræðu og svaraði fyrirspurnum fyrir kjördag. Hann er ekki í kjöri og sagði í ræðu sinni að hann kveddi stjórnmálin sáttur eftir að hafa starfað á þeim vettvangi í um 40 ár.

Hann sagðist hafa komið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti eftir mikil og góð kynni af sjávarútvegi. Fyrir rúmum 40 árum var hann stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík. Í ráðuneytinu hefði hugur sinn þó beinst sífellt meira að landbúnaðarmálum, sjávarútvegurinn stæði traustum fótum, skapa yrði landbúnaði og bændum meira svigrúm og betri starfskjör.

Í upphafi sat Kristján Þór uppi með ömurlegar afleiðingar tollasamninga og búvörusamninga sem gerðir voru í tíð forvera hans. Undir forystu hans var vörn snúið í sókn meðal annars með góðri samvinnu við Harald Benediktsson. Þeir lögðu grunn að því verki sem við Hlédís Sveinsdóttir lukum með landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland! sem fær alls staðar góðar undirtektir.

Í ráðherratíð Kristjáns Þórs hafa allar umræður um landbúnaðarmál snúist til betri vegar og gróska setur svip á dreifbýli landsins. Að það sé metið má til dæmis sjá af mynd af honum sem hangir á fjárhúsvegg í Miðfirði.

242599753_640216560697051_4327279863882094510_nKristján Þór Júlíusson með Ólafi Rúnari Ólafssyni bónda á Urriðaá í Miðfirði. Mynd af Kristjáni Þór er á fjárhúsveggnum í baksýn. (Mynd: Magnús Magnússon.)

Gróskuna má að stórum hluta rekja til ljósleiðaravæðingar dreifbýlisins undir forystu Haralds Benediktssonar. Merkin um áhrif hennar verða sífellt skýrari og birtast meðal annars í breyttri búsetuþróun með flutningi fólks í sveitabyggðir. Lögheimilislöggjöfinni hlýtur að verða breytt í samræmi við þessa þróun. „Dulin búseta“ sem rekja má til tímaskekkju í löggjöf raskar þjónustujafnvægi og kann að skapa vandræði í sveitarfélögum, til dæmis ef fjárstreymi í þágu heilsugæslu tekur mið af skráðum íbúum en þjónusta við „dulda íbúa“ eykst jafnt og þétt.

Kjósendur ákveða á morgun hvort haldið verði áfram á brautinni sem mörkuð er með Ræktum Ísland! eða tekin upp stefnulaus kollsteypuvinnubrögð í landbúnaðarmálum.