14.1.2025 11:18

Máttvana stjórnkerfi borgarinnar

Þess eru dæmi að stjórnkerfi sveitarfélaga hrynji einfaldlega saman vegna óhæfra einstaklinga sem leiða þau hvort heldur sem kjörnir fulltrúar eða opinberir starfsmenn. Margt bendir því miður til þess að Reykjavíkurborg sé á þessari vegferð.

Þess eru dæmi að stjórnkerfi sveitarfélaga hrynji einfaldlega saman vegna óhæfra einstaklinga sem leiða þau hvort heldur sem kjörnir fulltrúar eða opinberir starfsmenn. Margt bendir því miður til þess að Reykjavíkurborg sé á þessari vegferð.

Þetta gerist ekki nema um árabil hafi stjórendur komist upp með að ýta brýnum úrlausnarefnum á undan sér vegna ágreinings um leiðir til að takast á við verkefnin, vegna fjárskorts eða einfaldlega af hræðslu við að taka umdeildar ákvarðanir.

Allt þetta hefur einkennt stjórnarhætti Reykjavíkurborgar undir forystu Dags B. Eggertssonar sem nú hefur fengið sæti á alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar. Hann bauð sig fram í óþökk Kristrúnar Frostadóttur flokksformanns og nýtur ekki trausts hennar til trúnaðarstarfa á alþingi eftir að hún er orðin forsætisráðherra.

Screenshot-2025-01-14-at-11.14.13Þegar ráðist verður í smíði Öldunnar yfir Fossvoginn verður öryggi norðir/suður brautar Reykjavíkurflugvallar skert. (Mynd úr erindi Ásdísar Kristinsdóttur, forstöðumanns borgarlínu.

Hér skal fullyrðingin um hrun stjórnkerfis borgarinnar rökstudd með þremur dæmum.

1. Fylgt hefur verið þéttingarstefnu í lóðamálum Reykjavíkur sem leitt hefur til skorts á lóðum og þar með hækkað þær í verði. Vegna fjárskorts hafa stjórnendur borgarinnar tekið æ vafasamari ákvarðanir um ráðstöfun lóða. Fyrir einn milljarð króna ráðstöfuðu þeir lóð við Álfabakka undir risastórt vöruhús í andstöðu við skipulag. Þeir þora ekki að verja afleiðingarnar og embættismenn gera það á hæpnum forsendum og eyðileggja þar með endanlega orðspor skipulags- og umhverfissviðs borgarinnar.

2. Frá því í júlí 2023 hefur legið fyrir að nauðsynlegt sé að ryðja á brott trjágróðri í vesturhlíð Öskjuhlíðar, helst allt að 3.000 trjám en að minnsta kosti 1.400 til að tryggja öryggi á austur/vestur braut Reykjavíkurflugvallar. Nú telja sérfræðingar að komið sé að hættumörkum. Þá kemur í ljós að stjórnendur borgarinnar hafa ekki tekið afstöðu til erindisins og borgarstjóri sakar samgöngustofu um „æðibunugang“ þegar gengið er eftir svörum. Fyrir liggur að við smíði brúar yfir Fossvoginn, Öldu, sem er á döfinni muni byggingarkranar skerða öryggi á norður/suður braut flugvallarins. Hættuástand er að myndast á flugvellinum fyrir atbeina stjórnenda borgarinnar.

3. Fjármál. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Reykjavíkurborg bréf í október 2024 um að borgin uppfyllti ekki ákvæði sveitarstjórnarlaga sem taka gildi árið 2026 um skuldahlutföll miðað við ársreikning frá árinu 2023. Gerð er krafa um það í bréfinu að gripið verði til aðgerða strax svo að borgin geti sem fyrst uppfyllt umrædd skilyrði. Árið 2024 seig á ógæfuhliðina.

Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur markvisst og með skýrum rökum dregið fram augljósar brotalamir í stjórn borgarinnar. Undanfarið hefur meirihlutinn ákveðið að reyna ekki einu sinni að svara gagnrýni. Andstaða af hálfu Flokks fólksins og gagnrýni tekur á sig nýjan svip í ráðhúsinu eftir að borgarfulltrúi flokksins gekk í lið með Samfylkingu og Viðreisn í Smiðjunni hinum megin við Vonarstrætið.