13.9.2022 12:07

Máttvana Samfylking

Þegar þing kemur saman í dag (13. september) er brotthvarf Samfylkingarinnar í núverandi mynd til marks um verðandi þáttaskil í íslenskum stjórnmálum.

 

Dagar Samfylkingarinnar sem stjórnmálaafls eru liðnir. Upphaflegt markmið flokksins var að sameina andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í því skyni að ýta honum til hliðar í íslenskum stjórnmálum. Það hefur gjörsamlega misheppnast. Eftir 22 ára starf eru sex í þingflokki Samfylkingarinnar eins og í þingflokkum Pírata og Flokks fólksins. Samfylkingin hefur enga stöðu til að kalla sig forystuflokk stjórnarandstöðunnar.

Viðskiptablaðið birti leiðara 10. september 2022 undir fyrirsögninni: Samfylkingin deyr. Þar segir meðal annars:

„Innan grasrótar Samfylkingarinnar eru háværar raddir um að bæta þurfi ímynd flokksins með því að segja skilið við Samfylkingar-nafnið og nefna flokkinn Jafnaðarflokkinn. Þetta er alþekkt í viðskiptum. Nói Síríus kvaddi sem dæmi fyrir nokkrum árum Pipp-nafnið og setti Síríus Pralín súkkulaði á markað.“

Þá er einnig vakin athygli á því að á samkomunni í Iðnó í ágúst þar sem Kristrún Frostadóttir tilkynnti að hún yrði næsti formaður Samfylkingarinnar var flokksmerkið hvergi sjáanlegt heldur var gömlu kratarósinn varpað á rauðan bakgrunn og í leiðara Viðskiptablaðsins segir: „Eins og margir vita var hnefi og rós merki Alþýðuflokksins, þar sem hnefinn táknaði afl og rósin fegurð. Hnefinn var hvergi sjáanlegur í Iðnó, þó aflið sé einmitt það sem flokkurinn þarfnast mest.“

FarJCEIWIAANLL5Myndina birti Kristrún Frostadóttir af fundinum  í Iðnó 19. ágúst 2022 þar sem hún tilkynnti formennsku sína í Samfylkingunni. Hún var við ræðupúlt á palli og kastljósinu var beint að henni. Í bakgrunni er gamla kratarósin  - en án hnefans.

Kristrún Frostadóttir boðar stefnu þar sem fallið er frá tveimur baráttumálum Samfylkingarinnar til nokkurra ára: ESB-aðildarumsókninni og nýju stjórnarskránni. Hún viðurkennir í raun að flokkurinn hafi enga burði til að berjast lengur fyrir þessum málum. Um ESB-umsóknina sagði hún í samtali við Kjarnann:

„Fyrsta skrefið fyrir mér er að spyrja þjóðina hvort við eigum að fara í þetta verkefni. Leggja aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka svo stöðuna í kjölfarið.“

Þetta var stefna Sjálfstæðisflokksins vorið 2009 þegar Samfylking og VG hófu umsóknarferli sem bar dauðann í sér frá upphafi.

Um stjórnarskrármálið segir hún við Kjarnann að hún vilji ekki senda þau skilaboð að það sé ekki hægt að komast áfram í kjarna-velferðarmálum nema að Ísland fái nýja stjórnarskrá. „Ég vil ekki stunda þannig pólitík að við séum að bíða eftir einni lausn sem muni laga allt annað.“

Af þessum orðum má ráða að málefnaleg uppgjöf Kristrúnar leiði til umpólunar Samfylkingarinnar verði hún flokksformaður. Það sýnir best hve illa er komið fyrir flokknum að þess verður ekki vart að nokkur innan hans gangi fram og verji stefnuna sem Jóhanna Sigurðardóttir mótaði vorið 2009 og hefur verið leiðarstef Samfylkingarinnar í eyðimerkurgöngunni síðan.

Þegar þing kemur saman í dag (13. september) er brotthvarf Samfylkingarinnar í núverandi mynd til marks um verðandi þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Stjórnarandstaðan er í molum. Samstaða er þar engin þegar tekist er á um leifarnar af flokknum sem gerir kröfu um að vera í forystu hennar.