Máttvana menntamálaráðherra
Háleit markmið í menntastefnu er vissulega nauðsynleg. Það liggur hins vegar fyrir að menntamálaráðherrar líta á aðgerðaáætlanirnar frekar sem yfirbót en verkefni.
Undanfarin ár hefur verið óáran í íslenskum menntamálum. Það hefur skort pólitíska forystu eins og lesa mátti í viðtali við Lilju D. Alfreðsdóttur, varaformann Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu laugardaginn 22. nóvember. Hún sagði meðal annars:
„Ég vildi ekki leggja niður samræmdu prófin. Menntamálastofnun hafði bara ekki getu í að framkvæma þau. Þetta var einn erfiðasti dagurinn minn sem menntamálaráðherra, af því að kerfið hafði brugðist börnunum og ég gat ekki lagað það einn, tveir og þrír.“
Prófin voru lögð niður í júlí 2021 vegna þess „að illa hafði gengið að leggja fyrir samræmdu könnunarprófin rafrænt. Fyrirlagningin hafði í raun mistekist ítrekað,“ segir í Morgunblaðinu.
Þetta er að sjálfsögðu óframbærileg ástæða fyrir jafnstóra pólitíska ákvörðun um skólastarf. Forverar Lilju í embætti menntamálaráðherra hafa tekist á við tæknilega erfiðleika við fyrirlögn samræmdra prófa án þess að hætta þeim.
Í stað þess að leysa tæknilega vandann hófst ferli sem ekki er lokið enn. Þá hefur einnig verið lokað á miðlun upplýsinga um stöðu nemenda og árangursmælingar. Þrátt fyrir þessa þróun segir Lilja í viðtalinu að hætta eigi „að gefa einkunnir í litum á unglingastigi og innleiða aftur einkunnir í tölustöfum“. Skólinn þurfi „að veita skýrari upplýsingar um stöðu nemenda“.
Lilja D. Alfreðsdóttir (mynd:mbl.is)
Þetta gerist ekki nema menntamálaráðherra vinni markvisst að því að hverfa af óheillabraut undanfarinna ára. Frá því að Lilja hvarf úr embætti hafa setið þrír menntamálaráðherrar. Þeir hafa allir sett allt sitt traust á kerfið.
Þegar Lilja er spurð hvað sé til ráða vísar hún í menntastefnu sem hún hafi mótað og aðgerðaáætlanir á grunni hennar, þær séu „lykillinn að sýninni um að við getum orðið framúrskarandi menntakerfi“. Við höfum verið þar og getum vel komið okkur þangað aftur, það taki bara smátíma.
Háleit markmið í menntastefnu er vissulega nauðsynleg. Það liggur hins vegar fyrir að menntamálaráðherrar líta á aðgerðaáætlanirnar frekar sem yfirbót en verkefni sem verður ekki hrundið í framkvæmd nema með virkri forystu og framkvæmd ráðherrans sjálfs. Án pólitískrar forystu gerist ekkert nýtt.
Samtalið við Lilju má skilja á þann veg að hún hafi tekið lykilákvarðanir sem henni voru þvert um geð eða ekki náð því fram sem hún vildi, meðal annars vegna andstöðu Reykjavíkurborgar.
Hafi pólitíski styrkur Lilju ekki dugað henni gegn kerfinu er ástæðulaust að vænta mikils af Guðmundi Inga Kristinssyni, núverandi mennta- og barnamálaráðherra, þótt hann sé varaformaður í flokki sínum, Flokki fólksins, eins og Lilja er í Framsóknarflokknum.
Guðmundur Ingi vill að um sig sé rætt í fjölmiðlum eins og fellur að óskum hans. Hann skapaði fordæmi á vefsíðu stjórnarráðsins sunnudaginn 23. nóvember og birti þar vantraust á fréttamat Morgunblaðsins. Skyldi dulda ástæðan vera viðtalið við Lilju? Það varpar ljósi á vanmátt núverandi menntamálaráðherra, skoðanaleysi hans og vandræðagang. Ábyrgð forsætisráðherra er mikil að hún skuli líða svona vinnubrögð í þessu mikilvæga ráðuneyti.