4.6.2020 9:59

Mattis gagnrýnir Trump

Nú er ekki lengur unnt að segja að aðeins „öfgamenn frá vinstri“, „falsfréttamiðlar“, „glóbalistar“ og „djúpríkið“ vegi að Trump.

Jim Mattis hershöfðingi var varnarmálaráðherra í stjórn Donalds Trumps frá janúar 2017 til janúar 2019 þegar hann sagði af sér. Ósætti var milli hans og Trumps en Mattis fór ekki gagnrýnisorðum um forsetann og hefur oft síðan, þar til nú, sagt að hann telji ekki við hæfi að gagnrýna sitjandi Bandaríkjaforseta. Miðvikudaginn 3. júní birti svo The Atlantic yfirlýsingu frá Mattis þar sem hann sagði:

„Donald Trump er fyrsti forsetinn á minni ævi sem reynir ekki að sameina bandarísku þjóðina – gerir ekki einu sinni tilraun til þess. Hann reynir þess í stað að sundra okkur. Við kynnumst nú afleiðingum þriggja ára markvissrar viðleitni í þessa veru.“

Mattis beindi orðum sínum að þeim sem fara nú fyrir Bandaríkjaher og fann að því að þeir hefðu farið með forsetanum til að láta taka „fáránlega“ mynd af sér fyrir framan St. John‘s kirkjuna skammt frá Hvíta húsinu í Washington. Táragasi, riddaraliði lögreglu, óeirðalögreglu og þjóðvarðliði var beitt gegn friðsömum mótmælendum svo að forsetinn og fylgdarlið hans gæti gengið að kirkjunni.

„Með því að hervæða svar okkar eins og sést gert í Washington DC er stofnað til átaka – falskra átaka – milli hersins og borgaranna,“ segir Mattis í yfirlýsingu sinni.

GangaDonald Trump á leið að St. John's kirkju lengst til vinstri er William Barr dómsmálaráðherra en Mark Esper varnarmálaráherra er á miðri myndinni. Hann sætir harðri gagnrýni fyrir að hafa tekið þátt í þessari sýndarmennsku forsetans.

Hér var í fyrradag sagt að með framgöngu sinni magnaði Donald Trump deilur í Bandaríkjunum í stað þess að reyna að lægja öldurnar og var sýndarmennskan sem fólst í göngunni að St. John´s kirkjunni og myndatakan þar einmitt nefnd til marks um sundrungariðjuna. Allt var það gert í óþökk forystumanna kirkjunnar sem gagnrýna Trump fyrir áróðursbragðið.

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hélt blaðamannafund miðvikudaginn 3. júní og lýsti sig andvígan því að Bandaríkjaher yrði beitt gegn mótmælendum í Bandaríkjunum. Hann gaf einnig fyrirmæli um að 200 fallhlífarhermenn sem höfðu verið sendir til Washington DC færu aftur til búða sinna. Þá gaf Esper til kynna að það hefði komið honum á óvart að forsetinn nýtti sér St. John´s kirkjuna til myndatöku, hann hefði ekki átt von á því þegar hann slóst í gönguför með Trump til að skoða skemmdarverk.

Fréttir úr Hvíta húsinu eru á þann veg að Esper sé í litlum metum hjá forsetanum, hann þyki lélegur varnarmálaráðherra og sé of hallur undir Mike Pompeo utanríkisráðherra. Trump hefur ekki gagnrýnt Esper opinberlega en hann vék hins vegar óvirðingarorðum að Jim Mattis á Twitter og sagði:

„Líklega er aðeins eitt sem við Barack Obama eigum sameiginlegt, við njótum báðir þess heiðurs að hafa rekið Jim Mattis, mest ofmetna hershöfðingja í heimi.“

Nú er ekki lengur unnt að segja að aðeins „öfgamenn frá vinstri“, „falsfréttamiðlar“, „glóbalistar“ og „djúpríkið“ vegi að Trump, þyngsta gagnrýnin kemur frá þeim sem vilja standa vörð um einingu Bandaríkjamanna og hlutverk Bandaríkjahers. Þetta er enn talið til marks um að þeim fækki sem telja sér til framdráttar að standa opinberlega með forsetanum.