23.12.2021 10:26

Martröð Sigmundar Ernis

Sigmundi Erni er huggun að líklega sé sá tími liðinn að nokkur einn flokkur fái meirihluta í Reykjavík. Eftir 28 ár er þetta enn pólitíska martröðin sem sækir á ritstjórann og skoðanasystkini hans.

Að níða Sjálfstæðisflokkinn hefur verið meginstef vinstrisinna í Reykjavíkurborg frá því að þeir buðu fram sameiginlegan lista, R-listann, fyrir kosningar 1994 og náðu meirihluta. Vorið 2022 verður enn á ný gengið til borgarstjórnarkosninga og enn eftir 28 ár gera vinstrisinnar sér von um að halda meirihlutavöldum í Reykjavík með því að berja sameiginlega á Sjálfstæðisflokknum sem hefur í öll þessi ár verið stærsti einstaki flokkurinn í borgarstjórninni.

Það sem einkennir þennan andróður gegn Sjálfstæðisflokknum er að andstæðingar hans berjast ekki fyrir neinu þegar þeir bjóða kjósendum málstað í kosningum heldur berjast þeir á móti Sjálfstæðisflokknum. Þeir geta lagt neitt málefnalegt með sér vegna þess að þeir vita ekki hvernig kaupin gerast á eyrinni að kosningum loknum. Innan raða þeirra ræður „freki karlinn“ svo að notað sé hugtak sem borgarstjóra þeirra, Jóni Gnarr, var tamt fyrir nokkrum árum eftir að hafa farið með völd í ráðhúsinu í skjóli Dags B. Eggertssonar.

Samfylkingarritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarsson, birtir í dag (23. desember) á forsíðu niðurstöðu skoðanakönnunar um fylgi flokka í Reykjavík sem sýnir Sjálfstæðisflokkinn stærstan en verulegt fylgistap hjá Samfylkingunni. Þó er gengur blaðið og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að því sem vísu að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins geti að nýju skrapað saman í meirihluta að kosningum loknum 14. maí 2022.

Borgarstjorn2019_4Frá fundi í borgarstjórn Reykjavíkur (mynd: reykjavik.is).

Sigmundur Ernir áréttar enn á ný óvildina í garð Sjálfstæðisflokksins í leiðara blaðs síns í dag. Honum er huggun að líklega sé sá tími liðinn að nokkur einn flokkur fái meirihluta í Reykjavík. Eftir 28 ár er þetta enn pólitíska martröðin sem sækir á ritstjórann og skoðanasystkini hans. Þau eru öll með hugann við hana eins og þegar Sigmundur Ernir segir að „gamlir Sjálfstæðismenn sem muna stórkostlega tíma í valdasögu flokksins í Reykjavík, [hafi] einfaldlega ekki getað unnað [svo!] öðrum þess að stjórna borginni, og [hafi] tamið sér orðbragð í garð andstæðinganna sem fremur er sæmandi áhugafólki um einræði, en lýðræði. Annað orð yfir þessi ósköp er pólitísk ólund – og það verður að segjast alveg eins og er að það stafar engum sérstökum kjörþokka af því geðslagi.“

Ritstjórinn rökstyður ekki ásakanir sínar í garð gamalla sjálfstæðismanna um ósæmilegt orðbragð í anda einræðisherra. Manni sem þannig talar um þá sem eru honum ósammála blöskrar ekki annað en eitthvert svakalegt orðbragð. Hvað skyldi hafa verið sagt sem svipti menn kjörþokkanum vegna geðslags þeirra? Ætli Sigmundur Ernir hafi ekki lesið bók Dags B. Nýju Reykjavík eða það sem Ólafur F. Magnússon, læknir og fyrrv. borgarstjóri, segir um málflutning og málstað núverandi borgarstjóra í henni?

Leiðari Sigmundar Ernis gefur tóninn fyrir kosningabaráttu Samfylkingarinnar í Reykjavík næstu mánuði. Hún verður ekki fyrir neinn málstað heldur enn á ný á móti Sjálfstæðisflokknum. Kynnt verður útilokunarstefnan sem Logi Einarsson flokksformaður boðaði með ömurlegum árangri fyrir þingkosningarnar.