15.5.2019 12:11

Marklaust minni hluta álit um O3

Álitið er samsuða órökstuddra fullyrðinga og einkennist af einfeldningslegum áróðri.

„Minni hluti utanríkismálanefndar telur að ekki hafi verið sýnt fram á að innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins standist stjórnarskrá og lýsir verulegum áhyggjum af því valdframsali sem í innleiðingu hans felst og áhrifum á framtíðarskipan orkumála á Íslandi.“ Á þessum orðum hefst álit Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem hann lagði fram í gær (14. maí) fyrir aðra umræðu um þriðja orkupakkann (O3) á alþingi.

Umræðan stóð frá 16.26 til 23.34 með 30 mínútna matarhléi. Henni lauk ekki og er áfram á dagskrá þingsins í dag. Atkvæði verða greidd um það ístjórnarskrána.

10thingsalurSigmundur Davíð er varamaður Gunnars Braga Sveinssonar, varaformanns Miðflokksins, í utanríkismálanefnd þingsins. Gunnar Bragi hafði það eitt til málanna að leggja að afgreiðsla nefndarinnar á málinu væri óboðleg og tíminn til að semja minnihlutaálitið væri alltof skammur. Gunnar Bragi sat enga fundi nefndarinnar um málið og ekki heldur Sigmundur Davíð sem greinilega hefur ákveðið að taka ómakið af Gunnari Braga og hrista eigið álit fram úr erminni.

Álitið sem lesa má hér samsuða fullyrðinga sem standast ekki. Einfeldningslegur áróður eins og sá sem birtist í tilvitnuðum upphafsorðunum hér að framan einkennir álitið. Fyrir utanríkismálanefnd komu nokkrir lögfræðilegir álitsgjafar sem töldu O3 alls ekki brjóta í bága við stjórnarkrána, meirihluti álitsgjafanna taldi að ekki þyrfti að gera neinar ráðstafanir til að tryggja hollustu við stjórnarskrána. Tveir sem unnu sameiginlegt álit höfðu aðra skoðun sem reist var á því að hér kynni að verða unnið að lagningu sæstrengs. Ríkisstjórnin brást við þessum viðvörunarorðum og lögfræðilegu álitsgjafarnir tveir birtu opinbera yfirlýsingu um að málið félli innan ramma stjórnarskrárinnar.

Þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi sóttu ef til vill ekki fundi utanríkismálanefndar til að komast hjá því að heyra skoðanir gegn vitleysunni sem þeir boða í þessu máli. Tilvitnuðu upphafsorðin í áliti Sigmundar Davíðs sýna að efnislega er honum er alveg sama hvað aðrir segja og hann heldur að mál taki á sig nýja mynd lemji hann hausnum við steininn.

Komi upprifjun á afstöðu Sigmundar Davíðs honum illa er hún að hans mati flótti frá veruleika líðandi stundar. Ekkert sé sjálfsagðara en hann hafi eina skoðun í dag og aðra á morgun í sama málinu. Nú hentar það pólitískum hagsmunum Sigmundar Davíðs að vera á móti O3 á tilbúnum forsendum þótt hann hefði örugglega innleitt O3 þegjandi og hljóðalaust hefði hann ekki hrökklast úr embætti forsætisráðherra í byrjun apríl 2016.

Uppfært síðdegis 15. maí: Ekki er rétt hermt hér að ofan að Sigmundur Davíð hafi sér til afsökunar fyrir lélegu áliti um O3 að hann hafi ekki tekið þátt í fundum utanríkismálanefndar um O3. Nefndin hélt sex efnisfundi um O3 og einn afgreiðslufund. Sigmundur Davíð sat tvo efnisfundi og afgreiðslufundinn, Ólafur Ísleifsson sat tvo fundi og Gunnar Bragi Sveinsson einn. Enginn miðflokksmaður var á einum fundi.