13.11.2024 10:53

Marklausar vangaveltur um stjórnsýslu

Hvalavinir fengu þarna góðan bandamann, sjálfan Jón Ólafsson. Hann vill alls ekki að rætt sé um ólögmætu aðferðina við öflun þessara sérkennilegu upplýsinga. 

Jón Ólafsson prófessor við hugvísindasvið Háskóla Íslands var í Kastljósi þriðjudaginn 12. nóvember. Má lýsa komu hans þangað sem grátbroslegu dæmi um samvinnu starfsmanna ríkisútvarpsins og Háskóla Íslands til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn.

Jón Ólafsson segir að samtal sonar Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og huldumanns á vegum fyrirtækisins Black Cube sé „klassískt dæmi um spillingu innan stjórnsýslunnar“ svo að vitnað sé í ruv.is.

Samtalið átti sér alls ekki stað milli manna innan stjórnsýslunnar. Það á að hafa snúist um að Jón Gunnarsson tæki fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi og kynni að koma að matvælaráðuneytinu þar sem tekin væri afstaða til leyfa til hvalveiða.

Screenshot-2024-11-13-at-11.51.48Skjámynd af Jóni Ólafssyni í Kastljósi 12. nóvember 2024,

Hvalavinir fjármögnuðu leynilega aðgerð huldumanns til að draga fram upplýsingar sem þeir gætu nýtt sér gegn málsvörum hvalveiða. Virðist leynileg upptaka á ofangreindu samtali það bitastæðasta sem kom upp úr krafsinu.

Hvalavinir fengu þarna góðan bandamann, sjálfan Jón Ólafsson. Hann vill alls ekki að rætt sé um ólögmætu aðferðina við öflun þessara sérkennilegu upplýsinga heldur efni þeirra sem hann færir síðan í kolrangan búning.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. forseti Íslands, sendi nýlega frá sér bók með brotum úr dagbókum sínum um fjölmiðlamálið og Icesave-samningana.

Þar segir hann t.d. frá því að um mánaðamótin maí/júní 2010 hafi Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra nauðað í sér um hringja í T. Halonen Finnlandsforseta og biðja hana um að greiða fyrir því að samþykkt yrði á fundi leiðtogaráðs ESB 17. júní að hefja aðildarviðræður við Össur.

Ólafur Ragnar sagði við Össur að sér þætti „hæpið“ að hann færi að blanda sér „beint í ESB-ferlið“. Hins vegar sagði hann dagbókinni að mikilvægt væri að gera það til að „treysta á ný sambandið við Össur“. Forseti Íslands sagðist geta sagt að ríkisstjórnin hefði beðið sig um að hringja ef málið kæmi „einhvern tímann til tals“. Hann hringdi því í finnska forsetann 4. júní 2010 til að hjálpa Össuri við að ýta ESB-aðildarviðræðunum af stað „og var það fínt samtal“ stendur í dagbókinni.

Séu stjórnendur Kastljóss á annað borð áhugasamir um klassísk dæmi „um spillingu innan stjórnsýslunnar“ er undarlegt að þeir hafi ekki brotið það sem felst í þessari frásögn Ólafs Ragnars Grímssonar til mergjar. Þar er skýrt frá ferli á æðstu stöðum innan stjórnsýslunnar.

Ólafur Ragnar segist birta valda kafla úr dagbókum sínum vegna til að miðla þjóðinni „upplýsingum og efniviði í lærdómsríkt veganesti“. Það ætti að taka hann á orðinu og ræða hvers vegna því var haldið leyndu að hann hefði tekið að sér að reka erindi fyrir ríkisstjórnina í ESB-aðildarferlinu. Það er mun bitastæðara efni en marklausar vangaveltur vegna símtals manna sem hafa ekkert með stjórnsýsluna að gera. Það er undarlegt að prófessor taki að sér að gera slíkt símtal að spillingarmáli innan stjórnsýslunnar. Að fréttamaður Kastljóss kyngi slíkri vitleysu sannar enn að í þessu undarlega máli á tilgangurinn að helga meðalið.