Markaðsíhlutun Viðreisnar
Á fáeinum mánuðum við stjórn landsins hefur ráðherrum Viðreisnar tekist að afsanna að flokkurinn berjist fyrir frjálsri verðlagningu.
Á fáeinum mánuðum við stjórn landsins hefur ráðherrum Viðreisnar tekist að afsanna að flokkurinn berjist fyrir frjálsri verðlagningu. Þar hefur Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra verið í fylkingarbrjósti með dyggri aðstoð varaformanns Viðreisnar, Daða Más Kristóferssonar.
Þau hafa til dæmis lagt til að hér verði búin til ný regla um veiðigjöld vegna uppsjávarveiða, miða skuli við verð á uppsjávarfiski í Noregi sem fengið er af uppboðsmarkaði þar í landi.
Það einkennir norska uppsjávarmarkaðinn að skráningarkerfi á veiddum afla byggist eingöngu á skýrslum og handvirkum skráningum eiganda eða notanda fiskiskips og viðtakanda og kaupanda aflans. Þrátt fyrir reglugerðarbreytingar á síðustu árum hefur innleiðing á sjálfvirkum vigtunar- og mælikerfum við löndun ekki komið til sögunnar. Það á með öðrum orðum að innleiða niðurstöður í handvirku norsku sölukerfi við verðlagningu á uppsjávarfiski hér á landi.
Ekkert annað en pólitískir sérhagsmunir ráða því að ráðherrar telji sig hafa vald til að grípa á þennan hátt inn í frjáls viðskipti með því sem þeir kalla „leiðréttingu“ á verðlagningu afurða. Í skjóli pólitískrar stefnu sem reist er á því að „allt“ sé heimilt til að hafa meira fé af útgerðarfyrirtækjum á að víkja markaðslögmálunum til hliðar með einhliða ákvörðun stjórnvalda.
Rökin fyrir þessari einkennilegu tillögu eru meðal annars þau að bæði íslensk og norsk skip veiði makríl, loðnu, síld og kolmunna. Það réttlætir að norskar markaðsreglur og venjur sem eru allt aðrar en íslenskar séu heimfærðar á íslensk fyrirtæki.
Falla þessar ákvarðanir og fyrirhuguð lagasetning að því sem samkeppniseftirlitsmenn telja heimilt?
Samhljómur hefur verið milli Hönnu Katrínar Friðriksson og samkeppnisyfirvalda í afstöðu til sjávarútvegsfyrirtækja. Hann birtist meðal annars á sínum tíma þegar samkeppniseftirlitið stóð að könnun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, könnun sem síðan var talin ólögmæt.
Við þingstörf í stjórnarandstöðu lýsti Hanna Katrín oft stuðningi sínum og Viðreisnar við öflugt samkeppniseftirlit og í sérstakri þingumræðu um eftirlitið að hennar ósk í september 2023 minnti hún á að þau í Viðreisn hefðu „lagt áherslu á að efla leiðsagnarhlutverk Samkeppniseftirlitsins vegna þess að það myndi bæði spara tíma og fjármagn“.
Sagði hún að eftirlitið hefði verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki sinnt þessu hlutverki sem skyldi. Hanna Katrín spurði „Af hverju? Getur verið að Samkeppniseftirlitið hafi ekki bolmagn til þess þegar litið er til annarra lögbundinna verkefna þess og svo þess fjármagns sem eftirlitið hefur úr að spila?“
Vildi hún að stofnunin fengi svigrúm „til að gera eftirlit með samkeppnisbrotum skilvirkara“.
Er tillaga atvinnuvegaráðherrans, um að ráðherrar hafi heimild til að „leiðrétta“ verðlagningu á fiski og miða við handvirkt norskt markaðsverð svo að hækka megi skatta, í samræmi við leiðsögn Samkeppniseftirlitsins?