28.11.2025 10:51

Mark Rutte heimsækir Ísland

Á alþingi ríkir mikil samstaða um þá stefnu sem birtist í þessum framkvæmdum öllum og stuðningnum við markmið NATO gegn Rússum og til stuðnings Úkraínumönnum í varnarstríði þeirra við Rússa.

Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, kom í fyrstu heimsókn sína hingað til lands rúmu ári eftir að hann tók við embætti sínu í Brussel. Aðildarríki bandalagsins eru 32 og ferð um þau öll tekur sinn tíma ásamt öðrum skylduverkum.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tóku vel á móti Rutte og bar hann bæði lof á þær og framlag Íslendinga til bandalagsins allt frá upphafi þess. Nú eins og áður væri ómetanlegt að bandalagsþjóðir og herafli þeirra hefði hér aðstöðu til eftirlits í lofti og á sjó. Ísland væri eins og önnur NATO-ríki hluti varnarkeðjunnar gegn útþenslustefnu Rússa.

„Haldi nokkur á Íslandi að hann sé fjarri vígaslóðum heimsins, þá er það alrangt. Aðildarríki NATO eru nú öll á austurvígstöðvunum. Og ástæða þess er einföld: Rússar hafa stóraukið umsvif sín,“ segir Rutte í samtali við Morgunblaðið í dag (28. nóvember).

Cq5dam.web.1280.1280Mark Rutte og Kristrún Frostadóttir fyrir framan Stjórnarráðshúsið 27. nóvember 2025 (mynd: vefsíða NATO).

Sama dag og Rutte kom hingað fór Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir til Reykjanesbæjar og ritaði undir viljayfirlýsingu um stækkun á olíubirgðastöð NATO í Helguvík, gerður verður 390 metra viðlegukantur og reist birgðageymsla fyrir 25 þúsund rúmmetra af skipaeldsneyti. NATO fjármagnar framkvæmdirnar með allt að tíu milljarða kr. framlagi.

Rutte fagnaði aðstöðu NATO hér og rekstri íslenskra yfirvalda á ratsjárkerfinu fyrir utan að sinna verkefnum sem gistiríki fyrir flugsveitir og stuðningslið þeirra sem athafna sig tímabundið á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Í stað stöðugrar viðveru herafla á vellinum er þar um stöðug skipti á liðssveitum að ræða. Mun stefnt að því að geta hýst þar allt að 1.000 manna lið.

Hernaðarlegar framkvæmdir í þágu NATO hafa aldrei verið meiri hér á landi síðan á níunda áratugnum.

Mannvirkjagerðin sem boðuð er í Helguvík hefur verið lengi til umræðu en hún fékk aukið gildi í apríl 2023 þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimilaði kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins að leita inn í íslenska landhelgi og hafnir til áhafnaskipta og þjónustu.

Á alþingi ríkir mikil samstaða um þá stefnu sem birtist í þessum framkvæmdum öllum og stuðningnum við markmið NATO gegn Rússum og til stuðnings Úkraínumönnum í varnarstríði þeirra við Rússa.

Það sem á vantar af hálfu íslenskra stjórnvalda er skýrari stefnumörkun um raunhæfar aðgerðir af hálfu þeirra sjálfra. Ekkert er rætt um það í tillögu utanríkisráðherra um varnar- og öyggismál sem nú er til umræðu á alþingi. Þar er að finna gamalkunnar yfirlýsingar og óljósar vangaveltur um breytingar á yfirstjórn aðgerðaverkefna.

Sjónarmiðum gegn þeirri stefnu sem fylgt er og festa á enn í sessi var einfaldlega hafnað í þingkosningunum fyrir ári þegar VG og Píratar duttu út af þingi. Það er helst sem andstöðuraddirnar heyrist í ríkisútvarpinu þar sem fréttastofan leggur sig fram um að kalla eftir þeim eða með spurningum sem eru eins og bergmál veraldar sem var á tíma hugsjónatengsla við Sovétríkin.