25.10.2021 9:50

Mánuður án alþingis

Það sýnir einkennilega slagsíðu á opinberum umræðum hér hve mikið veður er gert vegna endurtalningar atkvæða. Í málatilbúnaði þeirra sem leggja sig í líma við að gera allt tortryggilegt.

Í dag er 25. október, kosið var til alþingis 25. september. Þing er þó ekki komið saman og óvíst hvenær það verður vegna endurtalningar í NV-kjördæmi sem hafði áhirf á úthlutun jöfnunarþingsæta. Jón G. Guðbjörnsson, kjósandi í NV-kjördæmi, segir í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Merkilegt hvað mikið er gert úr þessari mistalningu atkvæða í NV-kjördæmi. Það eru engin álitamál uppi um framkvæmd sjálfra kosninganna og frágang kjörgagna í kjördeildum. Atkvæðatalningin á vegum yfirkjörstjórnar kjördæmisins hefur verið leiðrétt með endurtalningu strax og vísbending um misræmi kom upp. Ekki ástæða til að vefengja þá niðurstöðu. Losaraleg umgengni í einhverjum atriðum með kjörgögn á talningarstað er hins vegar ámælisverð og getur eftir atvikum talist saknæm en það er hins vegar langsótt að farið hafi verið í kjörgögnin til þess að rugla í þeim. Þá hefði þurft einbeittan brotavilja til. Yfirkjörstjórnin hefur beðist afsökunar enda er ábyrgðin hennar. Sett á laggirnar rannsóknarkjörnefnd til að skoða málið. Þar eiga allir þingflokkar fulltrúa sem munu skv. formanni nefndarinnar þurfa að halda marga fundi en til hróss skal það sagt að opnir fundir nefndarinnar með gestum eru til fyrirmyndar. En eins og þetta mál er vaxið hefði mátt leysa það í tveggja manna tali undir hlöðuvegg á nokkrum mínútum og tala svo bara um veðrið sem er óþægilega rysjótt þessa dagana.“

Undir allt þetta skal tekið. Það sýnir einkennilega slagsíðu á opinberum umræðum hér hve mikið veður er gert vegna endurtalningar atkvæða. Í málatilbúnaði þeirra sem leggja sig í líma við að gera allt tortryggilegt sem gerðist á klukkutímunum á milli talningar og endurtalningar í Borgarnesi felast ásakanir um sviksemi og það sem hér að ofan er lýst sem „einbeittum brotavilja“ til að falsa úrslit kosninganna.

10thingsalur_1635155321032Enginn veit á þessari stundu hve lengi þingsalurinn stendur auður (mynd: Bragi Þór Jósefsson).

Lifi menn í trúnni á kosningasvindl og útbreiði hana með aðstoð gagnrýnislausra fjölmiðlamanna sem telja grun fullvissu um saknæman verknað er sama hvað þingnefnd heldur marga fundi, miðlun falsfréttanna verður ekki hætt. Í frétt um afstöðu frambjóðanda Viðreisnar, Guðmundar Gunnarssonar, glitti í hótun sem helst virðast snúa að því að leitað verði til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strassborg!

Michel Barnier, sem samdi um úrsögn Breta úr ESB fyrir hönd Brusselmanna, leitar nú eftir stuðningi til forsetaframboðs meðal franskra hægrimanna. Eitt af því sem hann telur sér til fylgisauka er að vara við valdafíkn ESB-dómara í Lúxemborg og MDE-dómara í Strassborg.

Á sínum tíma var litið á dóm MDE vegna skipunar í landsrétt hér sem einskonar æfingu dómaranna í Strassborg fyrir atlögu að dómskerfinu í Póllandi. Varðstaða pólskra dómara um fullveldi lands síns veldur nú klofningi og illdeilum innan Evrópusambandsins.

Það lofar hvergi góðu að beint sé vegið að fullveldi þjóða með málskoti til dómara sem telja sig hafa yfirþjóðlegt vald. Að því skyldu þeir huga sem hafa í hótunum um málskot til MDE vegna endurtalningar atkvæða í NV-kjördæmi.