28.6.2023 5:53

Mannréttindastjóri í íbúaráði

Þess skal getið að þöggunina í borgarstjórn og borgarráði rökstuddi meirihlutinn með því að umræður yrðu til þess að varpa sök á starfsmenn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

Hér var sagt frá því mánudaginn 26. júní að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur vildi hvorki leyfa umræður í borgarstjórn né bókun á borgarráðsfundi um atvik sem var á fundi í íbúaráði Laugardals 12. júní 2023. Þá ráðguðust starfsmenn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar um það í beinni útsendingu á YouTube hvernig fulltrúi skrifstofunnar á fundinum ætti að komast hjá því að svara spurningum um dagvistunarmál á fundinum.

IMG_7381_1687931582350Morgunn við Tjörnina í Reykjavík

DV sagði fréttir af þessu atviki. Í gær (27. júní) fylgdi DV þessum fréttum eftir með frásögn af aukafundi í íbúaráði Laugardals sem haldinn var mánudaginn 26. júní. Hann var í beinni útsendingu á YouTube. Jakob Snævar Ólafsson blaðamaður ritar um hann á DV þriðjudaginn 27. júní og fær hann nú orðið hér:

„Rannveig Ernudóttir fulltrúi Pírata og formaður ráðsins hóf fundinn á því að biðja meðlimi ráðsins afsökunar á því að fundurinn 12. júní hefði ekki verið felldur niður. Hún gat sjálf ekki verið viðstödd fundinn og í ljósi þess að enginn varaformaður er í ráðinu þarf að kjósa formann á þeim fundum ráðsins sem fastur formaður ráðsins getur ekki verið viðstaddur. Fyrst hún, sem formaður, gat sjálf ekki mætt taldi hún eftir á að hyggja að fella hefði átt fundinn niður.

Hún baðst einnig afsökunar á því að hafa ekki komið því nógu skýrt á framfæri við aðra meðlimi ráðsins að heppilegast væri að fresta þeirri umræðu um leikskólamál sem var á dagskrá fundarins 12. júní. Heppilegra væri að hafa slíka umræðu þegar nær drægi hausti.

Mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, Anna Kristinsdóttir, stýrir Mannréttinda og lýðræðisskrifstofu borgarinnar. Meðal hlutverka skrifstofunnar er að aðstoða Íbúaráð í borginni við fundahald. Hún var viðstödd fund Íbúaráðs Laugardals í gær og tók til máls eftir að Rannveig hóf fundinn.

Anna bað meðlimi ráðsins afsökunar á framgöngu starfsmannanna tveggja á fundinum 12. júní. Hún sagði framkomu þeirra óboðlega. Mál þeirra væri til meðferðar innan skrifstofunnar og væri í hefðbundnum farvegi starfsmannamála. Anna sagði starfsmennina hafa gengið gegn öllum samskiptavenjum og ferlum þegar kemur að starfi skrifstofunnar með öllum þeim ráðum og nefndum borgarinnar sem hún aðstoðar.

Hún sagði starfsmennina hafa verið í afleysingum og ekki verið nægilega vel undirbúin fyrir þær venjur sem skrifstofan fylgir í starfi sínu með ráðum og nefndum á vegum Reykjavíkurborgar. Hlutverk skrifstofunnar væri að aðstoða við undirbúning funda og almennt skrifstofuhald sem snýr að þeim eins og frágangi fundargerða og bókana. Anna áréttaði að hlutverk skrifstofunnar og hennar starfsmanna væri ekki að taka ákvarðanir á fundum þeirra nefnda og ráða sem hún aðstoðar eða stýra umræðum á nokkurn hátt.

Anna bætti því við að starfsmennirnir tveir ... muni ekki koma frekar að utanumhaldi um fundi nefnda og ráða. Þetta væri í fyrsta sinn sem gerðar væru athugasemdir við aðkomu starfsmanna skrifstofunnar að fundum ráða og nefnda.“

Vandræðalegra verður þetta varla. Þess skal getið að þöggunina í borgarstjórn og borgarráði rökstuddi meirihlutinn með því að umræður yrðu til þess að varpa sök á starfsmenn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Varla hefði það verið gert á rösklegri hátt en mannréttindastjórinn gerði sjálfur eins og frásögn blaðamanns DV sýnir.