27.7.2018 10:49

Mannréttinda- og stjórnarskrárbrot Reykjavíkurborgar

Umboðsmaður telur með öðrum orðum að Reykjavíkurborg brjóti stjórnarskrárvarinn rétt á utangarðsfólki auk þess að virða ekki fjölþjóðlegar mannréttindareglur.

Umboðsmaður Alþingis kynnti 11. júlí álit um frumkvæðisathugun sína vegna húsnæðisvanda þeirra einstaklinga sem falla undir hugtakið „utangarðsfólk“, og þá sérstaklega þeirra sem glíma við fíknivanda, stundum samhliða geðrænum vanda og/eða líkamlegri fötlun, og eru ekki sjálfir færir um að leysa húsnæðismál sín. Í tilkynningunni frá 11. júlí segir:

„Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um biðtíma utangarðsfólks eftir því að fá úthlutað varanlegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg, skilyrði sem í reynd eru sett gagnvart þeim sem glíma við fíknivanda til að fá úthlutað húsnæði og fjölda gistinátta sömu einstaklinga í neyðarathvörfum hjá borginni verði ekki annað ráðið en að til staðar sé almennur og viðvarandi vandi í tengslum við húsnæðismál utangarðsfólks og það sama eigi við um hóp einstaklinga með fjölþættan vanda. Ekki sé unnt að líta svo á að almennur málsmeðferðartími í málaflokknum sé í samræmi við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar málshraðareglum stjórnsýsluréttarins. Þegar þessi atriði og umgjörð við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg séu virt heildstætt skorti á að Reykjavíkurborg tryggi utangarðsfólki, svo fullnægjandi sé, aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verða túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna (leturbreyting mín). Umboðsmaður komst einnig að þeirri niðurstöðu að reglur Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur fullnægi ekki kröfum sem gera verður til skýrleika reglna um skilyrði sem í reynd eru sett fyrir úthlutun húsnæðis.“

Mynd_af_fulltruum_stjornarandstodunnar_i_borga.width-720

Á myndinni eru frá vinstri: Sanna Magdalena Mörtudóttir Sósíalistaflokknum, Kolbrún Baldursdóttir Flokki fólksins, Hildur Björnsdóttir Sjálfstæðisflokknum, Vigdís Hauksdóttir Miðflokknum, Marta Guðjónsdóttir og Eyþór Arnalds Sjálfstæðisflokknum.

Umboðsmaður telur með öðrum orðum að Reykjavíkurborg brjóti stjórnarskrárvarinn rétt á utangarðsfólki auk þess að virða ekki fjölþjóðlegar mannréttindareglur. Þetta eru alvarlegar ásakanir og þess hefur ekki orðið vart að meirihluti borgarstjórnar brygðist við þeim. Það hefur minnihluti borgarstjórnar hins vegar gert.

Fulltrúar allra flokka sem mynda minnihluta í borgarstjórninni komu saman til fundar fimmtudaginn 26. júlí og ræddu „það neyðarástand sem nú ríkir meðal sífellt fleiri heimilislausra í Reykjavík,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra. Harma þeir „algjört aðgerðarleysi“ í þessum málaflokki. Áður höfðu fulltrúarnir árangurslaust óskað eftir aukafundi í velferðarráði borgarinnar. Í yfirlýsingu stjórnarandstöðunnar segir:

„Stjórnarandstaðan, hvar í flokki sem hún stendur, sammælist um að grípa þurfi strax til neyðarúrræða, hefjast handa við að leysa þennan alvarlega vanda til frambúðar og hefur farið fram á aukafund í borgarráði strax í næstu viku.

Heimilislaust fólk fær ekki sumarfrí frá áhyggjum sínum og þeirri angist sem fylgir því að hafa ekki þak yfir höfuðið.“

Þegar stjórnarandstaðan vék að ámælisverðum vinnubrögðum á borgarstjórnarfundi 19. júní gekk embættismaður borgarinnar, skrifstofustjóri borgarstjórnar, fram á völlinn og krafðist þess að forsætisnefnd tæki til skoðunar að grípa til viðeigandi ráðstafana, þar með talið að leita álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga! Þessi stórundarlegu viðbrögð eru kannski það sem koma skal í nýrri borgarstjórn.