29.2.2020 10:02

Mannfélag í flensufjötrum

Undanfarið hafa okkur verið flutt margvísleg viðvörunarorð. Nú síðast var lýst yfir hættuástandi eftir að kórónavírusinni greindist í Íslendingi nýkomnum frá Norður-Ítalíu.

Hönnunarmeistarinn Eyjólfur Pálsson (Epal) birti í vikunni opnuauglýsingu í dagblöðunum (Brandenburg auglýsingastofa átti hugmyndina). Þar eru veðurfræðingar í glæsilegri gulri, rauðgulri og rauðri stofu. Textinn í auglýsingunni er knappur, aðeins þrjú orð: Haldið ykkur innandyra.

Boðskapur auglýsingarinnar er að fara beri að viðvörunarorðum veðurfræðinganna þegar þeir segja okkur að vera innandyra. „Þá er nú eins gott að hafa fallega muni í kringum sig ­– og þá færðu einmitt í Epal,“ segir á vefsíðu fyrirtækisins við hlið auglýsingarinnar.

1192698Úr auglýsingunni frá Epal.

Undanfarið hafa okkur verið flutt margvísleg viðvörunarorð. Nú síðast var lýst yfir hættuástandi eftir að kórónavírusinni greindist í Íslendingi nýkomnum frá Norður-Ítalíu.

Á forsíðu Morgunblaðsins segir í dag (29. febrúar):

„Ekki þykir koma til greina að setja ferðabann til og frá landinu vegna veirunnar enda hafa slíkar ráðstafanir ekki gagnast gegn útbreiðslu hennar hingað til, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. „Hættustig almannavarna þýðir að í landinu er ástand sem kallar á öflug viðbrögð,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sem hvetur til ábyrgrar umræðu um málin.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld vel undirbúin:

„Ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki hafa unnið viðbragðsáætlanir verði útbreiðsla faraldursins hröð. Heilbrigðisyfirvöld hafa haft gott upplýsingaflæði til almennings með leiðbeiningum um varúðarráðstafanir og nú ríður á að við tökum höndum saman og fylgjum þeim leiðbeiningum vel.“

Allt er þetta í samræmi við boð og bönn í nútímasamfélagi þar sem gömul orð um veðurfar hverfa fyrir gulum, appelsínugulum (!) og rauðum viðvörunum um það hvernig forðast beri reiði veðurguðanna.

Eins og jafnan er á málinu önnur hlið. Óttar Guðmundsson geðlæknir segir í Fréttablaðinu í dag:

„Framtíðarmynd komandi kynslóða er næsta dapurleg. Landlægur inflúensufaraldur veldur því að annar hver maður er hóstandi og hinn í öndunarvél. Landið sekkur í sæ vegna hlýnunar jarðar. Viðvarandi jarðeldar og/eða óveður ríkja á Reykjanesskaga. Möguleikarnir eru endalausir og fréttaflutningur er eins og framtíðarskáldsaga. Brottflutningur íbúa Grindavíkur er skipulagður með tilheyrandi viðtölum við alvöruþrungna embættismenn. Nýju flensunni er lýst eins og íþróttakappleik þar sem fjöldi sýktra og dáinna er tíundaður daglega eins og hálfleikstölur í fótbolta.

Þetta hamfarablæti er orðið þreytandi. Menn sjá dauða og djöful í öllum hornum. Neikvæðnin er orðin að trúarbrögðum. Þeir sem ekki vilja taka þátt í þessu svartagallsrausi eru úthrópaðir sem afneitunarsinnar. Þótt 100 þúsund manns hafi sýkst af nýju flensunni þýðir það að tæplega átta milljarðar jarðarbúa eru ósýktir.“

Flensan er verst fyrir þá sem veikjast. Allt þjóðfélagið og mannfélagið er þó sýkt af henni með ófyrirsjáanlegum skaða.