26.1.2021 10:35

Málþófsréttur virtur

Við þessar aðstæður í öldungadeildinni vildi Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana, tryggja að svonefnd málþófsregla gilti.

Að kvöldi mánudags 25. janúar afhentu þingmenn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þingmönnum öldungadeildarinnar ákæruskjalið á hendur Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hann er sakaður um að hafa hvatt til árása á Bandaríkjaþing 6. janúar 2021. Samkomulag er í öldungadeildinni um að ákæran verði tekin þar fyrir 9. febrúar.

Trump verður ekki sakfelldir nema 17 repúblikanar í deildinni, af 50, snúist á sveif með demókrötum. Ólíklegt er að það gerist nema fram komi gögn sem sýni hlut Trumps mun verri en lesa má í fjölmiðlum eða heyra í útvarpi. Í fulltrúadeildinni greiddu 10 þingmenn repúblikana atkvæði með ákærunni. Logar flokkur repúblikana nú stafna á milli vegna uppgjörs milli trumpista og annarra. 

Us-politics-impeachmentÞingmenn úr fulltrúadeild Bandaríkjaþings afhenda öldungadeildarþingmönnum ákæruna á hendur Trump.

Í öldungadeildinni verða stjórnendur þingflokkanna tveggja að koma sér saman um vinnureglu sem tekur mið af því að nú er sama staða og í upphafi þings áriðp 2001, það er að flokkarnir eiga jafnmarga þingmenn í deildinni, 50:50. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði varaforseta Bandaríkjanna.

Við þessar aðstæður í öldungadeildinni vildi Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana, tryggja að svonefnd málþófsregla gilti, það er að til að koma í veg málþóf minnihlutans yrði að miða við að 60 þingmenn styddu umdeilt mál. Forystumenn demókrata sögðu fráleitt að verða við þessari kröfu og þeir myndu aldrei gefa McConnell fyrirheit um þetta.

Frá því var hins vegar skýrt mánudaginn 25. janúar að McConnell hefði fallið frá kröfu sinni um skriflega skuldbindingu eftir að tveir miðju-demókratar hefðu skýrt honum frá því í einkasamtali að þeir myndu ekki samþykkja tillögu um að binda enda á umræður yrði stofnað til málþófs um eitthvert mál. McConnell ætlar því að ræða við Chuck Schumer, leiðtoga demókrata í deildinni, um skipulag þingstarfa, skiptingu í nefndir og annað.

Í öldungadeildinni er unnt að grípa til á ensku nuclear option – kjarnorkukostsins – binda enda á umræður um umdeilt mál með einföldum meirihluta atkvæða, það er 51 atkvæði. Með fyrirheit tveggja demókrata í vasanum telur McConnell sig og þingflokk sinn varinn gegn því að þessi leið verði farinn gegn honum.

Í 71. gr. þingskapalaga alþingis segir í 2. og 3. mgr:

„Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. ... Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.

Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður.“

Tregðan til að grípa til þessara ráða á alþingi er til marks um hve þingmönnum er mikilvægt að virða málfrelsið jafnvel þegar reynt er að gera úlfalda úr mýflögu með málþófi um léttvæg mál eins og þriðja orkupakkann árið 2019.