26.5.2019 11:08

Málþófsmenn í holu

Það er erfiðara að ljúka málþófi en hefja það. Miðflokksmenn hafa farið dýpra núna en svo að hjálparhönd nái niður í holuna til þeirra.

Málþóf miðflokksmanna á alþingi um þriðja orkupakkann hafði þann tilgang fram að helgi að búa í haginn fyrir fjöldafund sem Orkan okkar og Gulvestungar boðuðu til á Austurvelli laugardaginn 25. maí klukkan 14.00.

Auk þess kom einhvers staðar fram að miðflokksmenn, sem vilja Sjálfstæðisflokknum illa, ætluðu sér einnig að tala til að varpa skugga á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins sem haldið var hátíðlegt víða um land laugardaginn 25. maí.

Fundurinn var á Austurvelli, að um fjöldafund væri að ræða er af og frá eins og myndin sýnir. Mun fleira fólk tók þátt í vel heppnaðri afmælishátíð sjálfstæðismanna við Valhöll þar sem reist hafði verið stórt veislutjald auk þess sem margir voru utan dyra í blíðviðrinu.

61473945_10211090627700892_4496586306553380864_nFrá fjöldafundi Orkunnar okkar og Gulvestunga á Austurvelli laugardaginn 25. maí. Orkan okkar berst gegn þriðja orkupakkanum. Gulvestungar taka nafn sitt frá andófshreyfingu í Frakklandi.  Á myndinni má sjá þrjá fundarmenn í gulum vestum. Rúmlega 50 manns eru á myndinni.

Í umræðum um málþófið núna er gjarnan vitnað til þess hvaða tökum við í þingflokki sjálfstæðismanna tókum stjórnlagafrumvarpið sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði fram á alþingi eftir stjórnarskiptin 1. febrúar 2009. Markmið Jóhönnu var að svipta alþingi stjórnarskrárvaldinu og færa það til stjórnlagaþings. Þetta var og er einhver mesta aðför sem gerð hefur verið að alþingi fyrr og síðar.

Við sjálfstæðismenn sem þá sátum á þingi ákváðum að berjast gegn þessari tillögu með öllum tiltækum ráðum og að lokum var málþóf það vopn sem við beittum. Þing var rofið og boðað til kosninga 25. apríl 2009.

Þegar þing kom saman þriðjudaginn 14. apríl að loknu páskaleyfi og aðeins 10 dagar voru til kjördags talaði ég fyrstur þingmanna Sjálfstæðisflokksins og sagðist mundu nýta mér málfrelsi mitt fram að kosningum og þingrofi 25. apríl til að standa vörð um alþingi og vald þess til að breyta stjórnarskránni og aldrei samþykkja, að þetta vald yrði framselt til stjórnlagaþings. Alþingi yrði ekki sett í annað sæti með mínum stuðningi.

Síðar þann dag lét ríkisstjórnin og meirihluti hennar undan þrýstingi okkar og stjórnlagatillagan dagaði síðan uppi á þingi. Á 10 árum sem síðan eru liðin hefur engum dottið í hug að endurvekja hana.

Við náðum árangri okkar í apríl 2009 vegna þess að kosningar voru á næsta leiti og þingstörfum hlaut því að ljúka.

Augljóst er að miðflokksmenn vita ekkert hvernig þeir ætla að ljúka málþófinu. Þeir hafa grafið sér holu en halda áfram að grafa sig dýpra. Þeir fara ekki eftir holu-lögmálinu sem kennt er við gamlan forystumann breska Verkamannaflokksins, Denis Healey, sem sagði árið 1964: „Let me tell you about the law of holes: If you find yourself in a hole, stop digging.“

Það er erfiðara að ljúka málþófi en hefja það. Miðflokksmenn hafa farið dýpra núna en svo að hjálparhönd nái niður í holuna til þeirra og þeir bæta ekki stöðu sína með því að halda áfram að grafa.

Vanda miðflokksmanna hefur áður verið lýst hér sem vanda þess sem skortir dómgreind á eigin stöðu. Þetta á við um Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Sagt er að í formannstíð hans í Framsóknarflokknum hafi það að jafnaði komið í hlut þáv. varaformanns flokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að hlaupa í skarðið þegar augljóst var að mál yrðu ekki leyst nema með samkomulagi. Gangi enginn erinda skynseminnar innan Miðflokksins halda þingmenn flokksins áfram í eigin holu.