26.10.2022 9:13

Málþóf um ekkert

Þetta er alkunn aðferð hjá þeim þingmönnum sem hafa ekkert efnislega til málanna að leggja en heimta að ráðherra annars málaflokks sé í þingsalnum.

Það er eins og við manninn mælt. Í hvert sinn sem dómsmálaráðherra flytur frumvarp á alþingi um endurbætur á útlendingalöggjöfinni fara þingmenn Samfylkingar og Pírata, nú með dyggri aðstoð Viðreisnar, í málþóf.

493223

Alþinggishúsið (mbl.is)

Frumvarpið sem lagt var fram í fimmta skipti í gær (25. okt.) var rætt í níu klukkustundir án þess að komast til annarrar umræðu. Á ruv.is segir í dag:

„Þingmenn Pírata og Samfylkingar tóku ítrekað til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta og kröfðust þess að Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra tæki þátt í umræðunum. Þeir telja að frumvarpið áhrif á málaflokka sem heyra undir ráðuneyti Guðmundar. Guðmundur gat hins vegar ekki mætt.“

Þetta er alkunn aðferð hjá þeim þingmönnum sem hafa ekkert efnislega til málanna að leggja en heimta að ráðherra annars málaflokks sé í þingsalnum. Þeim sé gjörsamlega ómögulegt að koma sér að efni málsins nema hann hlusti á þá tala. Aumara verður það varla.

Þingflokkar Samfylkingar og Pírata eru jafnstórir, sex í hvorum þingflokki, samtals 12 af 63 þingmönnum. Hvað eftir annað telja þessir 12 sig hafa ástæðu og rétt til að taka þingmál í gíslingu með álíka sterkum rökum og þeim að „rétti“ ráðherrann sé ekki í þingsalnum til að hlusta á ræður þeirra. Ræðurnar má tímum heyra og jafnvel sjá fluttar hvar sem innan lands og utan.

Þvermóðskan vegna frumvarpsins um útlendingamálin verður þeim mun undarlegri fyrir þá sök að þingmennirnir sem lýsa andstöðu við það segja frumvarpið í raun ekki breyta neinu.

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir helsti hugmyndafræðingur og smiður Pírata, þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson, um útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra: „ekkert bendir til þess að þetta frumvarp muni breyta einu né neinu“. Sé svo, hvers vegna umturnast píratar á þingi vegna frumvarpsins?