11.2.2021 10:58

Málsvörn Trumps í molum

Efasemdarmenn um að Trump hafi sigað skríl á þinghúsið ættu að kynna sér það sem lagt er fyrir öldungadeildarþingmenn áður en þeir greiða atkvæði um ákæruna.

Þegar fréttaþulur BBC World sjónvarpsstöðvarinnar kynnti beina útsendingu frá öldungadeild Bandaríkjaþings þar sem fulltrúadeildarþingmenn demókrata fluttu málið gegn Donald Trump, fyrrv. forseta, miðvikudaginn 10. febrúar sagði hann að vegna efnis í myndskeiðum, sem kynnu að verða sýnd, yrði um 20 sekúndna seinkun á sendingu BBC svo að vara mætti áhorfendur við ógnvænlegum myndum. Þær voru teknar innan dyra í þinghúsinu í Washington þegar skríllinn sem Trump sigaði á þingmenn fóru þar um „rænandi og ruplandi“.

Efasemdarmenn um að Trump hafi sigað skríl á þinghúsið ættu að kynna sér það sem lagt er fyrir öldungadeildarþingmenn áður en þeir greiða atkvæði um ákæruna. Trump verður ekki sakfelldur nema 17 öldungadeildarþingmenn repúblíkana greiði atkvæði með demókrötum í deildinni. Með því að flytja málið á þann veg sem gert er og með þeim sönnunargögnum sem fyrir liggja verður ömurlegra fyrir repúblikana að styðja Trump en hafna honum – þó er líklegt að þeir sakfelli hann ekki.

3OD3VXWCIZAC5B4CWSCT3K4KDABruce Castor, verjandi Trumps, flytur ræðu í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Vörn Donalds Trumps er í molum megi marka stórundarlega framgöngu Bruce Castors, aðalverjanda hans. Skömmu fyrir málflutninginn í öldungadeildinni sagði lögfræðingalið Trumps sig frá því að verja hann. Skýrendur segja að forsetanum fyrrverandi haldist illa á virtum lögfræðingum því að hann krefjist þess að þeir viðurkenni aldrei, ekki einu sinni í sekúndubrot, að Trump hafi tapað kosningunum 3. nóvember. Þetta flæki þó þá meginröksemdafærslu að stjórnarskráin heimili ekki að fulltrúadeildin ákæri óbreyttan borgara, eins og Trump.

Lagaprófessorinn Alan Dershowitz tók þátt í að verja Donald Trump þegar hann sætti ákæru fulltrúadeildar þingsins fyrir ári. Nú sat hann í beinni útsendingu mánudaginn 8. febrúar hjá fréttastöðinni Newsmax þegar Bruce Castor futti upphafsræðu sína. Newsmax leggur Trump lið en stjórnanda útsendingarinnar var svo misboðið vegna ræðu Castors að hann lokaði á hann og spurði Dershowitz: „Hvert er hann að fara með þessu?“ Prófessorinn hristi höfuðið og sagði: „Það eru engin rök. Ég hef enga hugmynd um hvað hann er að gera.“ Síðan gerði hann grín að smjaðri Castors í garð öldungadeildarþingmannanna.

The Wall Street Journal verður ekki sakað um að ganga erinda demókrata og blaðið studdi Trump í forsetakosningunum. Í dag (11. febrúar) segir í leiðara þess:

„Hvað sem öðru líður er ekki unnt að verja framgöngu Trumps 6. janúar og í aðdragandanum. Fullyrt er að Mitch McConnell [þingflokksformaður repúblikana] segi við flokksmenn sína að ákvörðunin um að sakfella eða sýkna ráðist af sannfæringu og það er við hæfi. Eftir að kjörmennirnir komust að niðurstöðu sinni 14. desember hefði Trump getað viðurkennt ósigur og hreykt sér af afrekum sínum.

Nú verður þetta ofbeldi að eilífu blettur á arfleifð hans ásamt því að hafa svikið stuðningsmenn sína með því að neita að segja þeim sannleikann. Hver sem niðurstaðan verður í ákærumálinu ættu repúblikanar að minnast svikanna ákveði Trump að bjóða sig fram að nýju árið 2024.“