21.3.2022 10:48

Málsvarar hliðar-raunveruleika

Þegar texti á borð við þennan er lesinn duga engar rökræður. Annaðhvort gengur maður inn í heim hliðar-raunveruleikans eða heldur sínu hversdagslega striki.

Í Morgunblaðinu í dag (21. mars) birtist grein eftir Guðrúnu Bergmann, rithöfund og áhugamann um frelsi og sjálfstæði einstaklingsins, eins og segir í höfundarkynningu blaðsins. Fyrirsögnin er þessi: Er smart að vera SMART?

Þar segir meðal annars: „SMART er eitt af laumuorðum WEF eða World Economic Forum og Davos-klíkunnar, sem vilja ásamt Evrópusambandinu koma á endurræsingunni miklu.“ Orðin „endurræsinguna miklu“ lýsa því sem almennt er nefnt fjórða iðnbyltingin.

Með grein sinni vill Guðrún hvetja lesendur „til að lesa vel yfir þá stefnuskrá sem frambjóðendur setja fram“ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og staldra við komi orðið SMART „þar oft fyrir“.

Í hugum einhverra eru þetta vafalaust varnaðarorð í tíma töluð. Rúmlega tveggja ára heimsfaraldur hefur orðið kveikja að alls kyns orðrómi, kviksögum og samsæriskenningum um að baki standi dulin öfl sem noti pestina til að koma ár sinni fyrir borð.

Guðrún bendir á að í tillögum að nýjum sóttvarnalögum hér sé farið að fyrirmynd frá frá WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sjálfseignarstofnun sem að mestu sé rekin fyrir fé frá ríkisstjórnum og stofnunum eins og Bill og Melinda Gates Foundation og Gavi, sem hafi það á stefnuskrá sinni að „bólusetja allan heiminn“ við öllu sem þeim dettur í hug.

Hún segir að borgarlínan sé SMART-verkefni Reykjavíkurborgar, ætlunin sé að reka „nokkurs konar fangalest“ sem flytji fólk úr íbúðum sem séu eins og „skókassar“ að stærð. Frá og með árinu 2030 „þurfum við ekki stærra heimili en „skókassa“, því við komum ekki til með að eiga neitt!“ segir Guðrún.

Istockphoto-896358708-612x612Þegar texti á borð við þennan er lesinn duga engar rökræður. Annaðhvort gengur maður inn í heim hliðar-raunveruleikans eða heldur sínu hversdagslega striki.

Þetta sama á við þegar hlustað er á ólíkindalegan boðskap um Úkraínustríðið eða lesið að það hefði ekki orðið ef a),b) eða c) hefði verið gert í fortíðinni til að friða Pútin eða setja honum stólinn fyrir dyrnar með valdi sem hann óttaðist.

Boðskapinn um að koma hefði mátt í veg fyrir innrásina í Úkraínu flytja meira að segja sumir sem sögðu jafnvel nokkrum dögum áður en hún var gerð að til hennar mundi örugglega ekki koma.

Nú þegar stríð hefur staðið í tæpan mánuð í Úkraínu án þess að Pútin nái markmiði sínu þrátt fyrir gjöreyðandi stríðsglæpi í Mariupol lætur Ólafur Ragnar Grímsson í Silfri sjónvarpsins eins og blóðbaðið sé stækkun NATO að kenna! Hlakkað er yfir því að Pútin geti selt olíu og gas til Kína og Indlands, hann sé bara eins og fólk er flest.

Þessi boðskapur er í anda hliðar-sannleika sem er raunveruleiki fyrir ýmsa. Pútin blés til stríðs í Úkraínu af því að hann telur ríkið hugarburð og hann gefur ekkert fyrir þjóðlegan metnað landsmanna. Hann segir eiturlyfjaneytendur og nazista stjórna landinu og þá verði að afhöfða. Launmorðingjar Pútins sitja um Volodymyr Zelenskíj. Takist að myrða hann að fyrirmælum Pútins verður forvitnilegt að vita hverju verður logið að okkur um það.