2.5.2017 13:57

Málstaður markhópsins á betra skilið en Gunnar Smára

Ótrúlegt er að einhverjir telji það þjóna pólitískum tilgangi að veita Gunnari Smára stuðning til að vinna fylgi kjósenda á þessum neikvæðu forsendum.

Fámenni var á fundi sem Sósíalistaflokkur Íslands boðaði til á Austurvelli 1. maí 2017 kl. 14.15. Sama dag var einnig efnt til ígildis stofnfundar flokksins í Tjarnarbíói 1. maí. Gunnar Smári Egilsson, leiðtogi íslenskra sósíalista, hafði til vonar og vara stofnað Sósíalistaflokk Íslands fyrir fundinn í Tjarnarbíói.

„Þetta er svolítið skrýtið, af því að ég þurfti náttúrlega að stofna flokkinn til þess að eiga nafnið svo að einhver Heimdellingur myndi ekki skrá Sósíalistaflokk Íslands,“ sagði Gunnar Smári Egilsson á stofnfundinum segir í Morgunblaðinu í dag.

Sósíalistaflokkurinn var stofnaður á þann veg að tveir yrðu í stjórn hans til „fyrsta maí og þessi fundur [í Tjarnarbíói] yrði haldinn og þá yrðu kannski fimm og einhverjir til vara en það bara atvikaðist að það voru eiginlega níu sem völdust í þetta,“ sagði Gunnar Smári. Bráðabirgðastjórn flokksins situr til flokksþings í haust. Við fréttamann ríkisútvarpsins sagðist Gunnar Smári ekki vita hvort hann yrði kjörinn flokksformaður á þinginu.

Markmið Gunnars Smára er að ýta undir stéttastríð í landinu. Hann ætlar að eigin sögn að ná til fátæks fólks, öryrkja, leigjenda, ómenntaðs láglaunafólks og annars láglaunafólks, innflytjenda og fólks sem er leigt á milli atvinnurekenda til að brjóta niður launakjör almennings. Hann sakar aðra vinstri sinnaða flokka um að vera í stöðugu samtali við auðvaldið. Aflið sé hjá almenningi og hann þurfi að taka vald sitt aftur frá auðmönnum. Spurður um hvort slíkt feli í sér byltingu útilokar hann ekki slíkt, segir í Morgunblaðinu. Almenningur þurfi að byrja á að taka sínar eignir fyrst, eins og kvótann. Hann megi meta á þúsund milljarða en stjórnvöld leigi hann út á 4 milljarða.

Ótrúlegt er að einhverjir telji það þjóna pólitískum tilgangi að veita Gunnari Smára stuðning til að vinna fylgi kjósenda á þessum neikvæðu forsendum. Hann virðist haldinn miklum ótta við pólitíska andstæðinga sína eins og sést af ummælum hans um að hann hefði orðið að stofna Sósíalistaflokkinn með leynd áður en ígildi stofnfundar var boðað vegna þess að hann óttaðist að Heimdellingar myndu stela „glæpnum“ frá sér.

Víst er að málstaður þess fólks sem Gunnar Smári ætlar að gera að markhópi sínum, sjálfum sér til framdráttar, á betra skilið en slíkan forystumann.