21.5.2022 11:27

Málpípur Pútins

Lygin sem Lavrov hefur flutt heimsbyggðinni undanfarna mánuði gerir hann að marklausri málpípu. Hann er að því leyti fyrirmynd þeirra Ingibjargar Gísladóttur og Hauks Haukssonar.

Í Morgunblaðinu birtist 14. apríl 2022 grein eftir Ingibjörgu Gísladóttur sem hófst á þeim orðum að heimurinn væri „genginn af göflunum – hatur á Rússum og öllu rússnesku er allsráðandi í fjölmiðlum“. Síðan spurð Ingibjörg: „En hvernig á ég að hata Pútín og Rússa þegar sömu fjölmiðlar og nú segja hann óalandi og óferjandi hafa veitt mér ýmsar upplýsingar gegnum tíðina sem setja gerðir hans í röklegt samhengi?“

Af grein hennar má ráða að hún verji tíma sínum að verulegu leyti í lestur erlendra dagblaða til að leggja rækt við vorkunnsemi sína í garð Pútins. Tilgangur greinar hennar er að bera blak af Rússlandsforseta.

Eftir að greinin birtist var um það rætt hvort þessi kona væri yfirleitt á meðal okkar utan netheima eða á prenti, hún væri sérhönnuð málpípa Pútins, tilbúið skálkaskjól til móta skoðanir Íslendinga.

Vissulega er það ekki ólíklegt – en ósannað. Hitt er sannað að Haukur Hauksson, magister í alþjóðamálum og leiðsögumaður í Rússlandi, er ljóslifandi. Öfgafull hrifning hans á Pútin er reglulega flutt frá Moskvu á Útvarpi Sögu og birtist hún einnig í grein í Morgunblaðinu á fimmtudaginn (19. maí).

Þar er vikið vinsamlega að kenningu Pútins um að skipta eigi Evrópu í áhrifasvæði og sagt að það hafi verið mistök hjá Mikhaíl Gorbatsjov, síðasta Sovétleiðtoganum, að fá ekki skriflega trygginu fyrir að NATO stækkaði ekki í austur.

Það vakti ekki fyrir neinum vestrænum leiðtoga við hrun Sovétríkjanna að takmarka fullveldisrétt þjóðanna sem fengu sjálfstæði við hrunið. Það er léleg söguskýring að telja Gorbatsjov hafa gert mistök gegn NATO. Spurningin snerist á tíunda áratugnum um hvort Rússar ætluðu í NATO eða ættu þangað erindi. Það var í raun ekki ljóst fyrr en í ræðu í München í febrúar 2007 sem endanlega lá fyrir að Pútin ætlaði sér að keppa við NATO og Bandaríkin en ekki stofna til samstarfs.

Haukur Hauksson ber ekki aðeins blak af Pútin heldur einnig skósveini hans, Sergei Lavrov utanríkisráðherra, sem sagðist vilja viðræður við NATO-ráðherra um öryggishagsmuni Rússa en laug því óteljandi sinnum veturinn 2021/22 að Rússar ætluðu ekki að beita hernum sem þeir söfnuðu að landamærum Úkraínu til að ráðast inn í landið.

IMG_20220326_0001-sswjk-dder-vvfrt-englishLygin sem Lavrov hefur flutt heimsbyggðinni undanfarna mánuði gerir hann að marklausri málpípu. Hann er að því leyti fyrirmynd þeirra Ingibjargar Gísladóttur og Hauks Haukssonar.

Í lok greinar sinnar setur Haukur fram þá ósvífnu skoðun að hér á landi þróist „ritskoðun og hótanir“, hér ráði „flokkslína Brussel og glóbalista“.

Haukur Hauksson hefur fullt frelsi til að vega á þennan hátt að því sem sagt er og birt hér. Skrifaði Haukur svona eða notaði orðið Úkraínustríð í Moskvu ætti hann allt að 15 ára fangelsi yfir höfði sér. Honum blöskrar það ekki en grípur til lygi um stöðu mála hér. Málsvarinn hæfir málstaðnum.