2.2.2025 11:02

Málaliðar gegn Morgunblaðinu

Í stjórnarherbúðunum vita menn að stjórnin lifir ekki nema aðrir verji Ingu Sæland og Flokk fólksins, hvorki hún né flokksmenn hennar hafi burði til þess. Málaliðarnir gegn Morgunblaðinu gegna þessu hlutverki.

Hatur og óvild í garð Morgunblaðsins einkennir nú málflutning þeirra sem halda uppi merkjum ríkisstjórnarinnar. Þeir ganga þess vegna langtum lengra en góðu hófi gegnir í vörn fyrir Ingu Sæland.

Margir stuðningsmenn Ingu styðjast við samantekt frá Hallgrími Helgasyni rithöfundi gegn Morgunblaðinu. Sjálfur hefur Hallgrímur alls ekki undan neinu að kvarta þegar litið er til þess rýmis sem Morgunblaðið veitir honum eða verkum hans, bókum og málverkum.

Ofsinn í garð Morgunblaðsins nú minnir á þegar Hallgrímur blés til andstöðu við Davíð Oddsson forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkinn síðsumars 2002. Hallgrímur kveikti þá í mörgum með grein um bláu höndina, ógnarveldi Davíðs og sjálfstæðismanna. Hallgrímur hvatti forystumenn Samfylkingarinnar til dáða og til stuðnings við Baugsmenn og aðra í viðskiptalífinu sem teldu sig afskipta af Davíð.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri, tók Hallgrím á orðinu og flutti snemma árs 2003 ræðu í Borgarnesi sem var herhvöt til vinstrisinna um að ganga í lið með Baugsmönnum og öðrum fjársýslumönnum sem vildu ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna feiga í þingkosningum vorið 2003. Kjósendur höfnuðu þessum málflutningi. Pólitísk ráðgjöf rithöfundarins skilaði ekki því sem að var stefnt og hefur ekki gert það síðan.

Talliareum-Ogre-Mercenary-Captain-halberd-and-pistol-version-front-view-by-Shieldwolf-Miniatures

Fréttablaðið var þá með leynisamkomulagi við Gunnar Smára Egilsson komið í eigu Baugsmanna og klifraði Gunnar Smári hratt upp peningastigann í veldi þeirra. Þá störfuðu Reynir Traustason og Sigríður Dögg Auðunsdóttir við blaðið sem tók að birta alls kyns upplýsingar án nafngreindra heimildarmanna til að koma Davíð og sjálfstæðismönnum illa.

Menn ættu að bera frásagnir Morgunblaðsins af Flokki fólksins nú saman við það hvernig Hallgrímur Helgason, Gunnar Smári og málaliðar Baugsmanna beittu fjölmiðlaveldi kaupsýslumannanna á þessum árum.

Ekkert af því sem Morgunblaðið segir um Ingu Sæland er rangt. Hvergi er farið leynt með heimildir eða heimildarmenn. Raunar er hún sjálf, Inga Sæland, besta uppspretta fréttanna vegna viðbragðanna sem hún sýnir þegar fjölmiðlaljósið beinist að henni. Ár og dagur eru frá því að slík framganga stjórnmálamanns hefur birst hér, er það eitt fréttnæmt fyrir utan tilefni fréttanna hverju sinni hvort sem þær snúast um fjármál Flokks fólksins eða samskipti Ingu við skólameistarann í Borgarholtsskóla.

Í stjórnarherbúðunum vita menn að stjórnin lifir ekki nema aðrir verji Ingu Sæland og Flokk fólksins, hvorki hún né flokksmenn hennar hafi burði til þess. Málaliðarnir gegn Morgunblaðinu gegna þessu hlutverki.

Árásunum á Morgunblaðið er ætlað að hræða fólk frá því að segja nokkuð ámælisvert um Flokk fólksins eða ríkisstjórnina almennt. Í þessu felst hótun um að þeir sem leyfi sér slíka gagnrýni falli í ónáð, þeim verði slaufað.

Álitsgjöfum og vókliðum stjórnarherranna sárnar að þeir ákveði ekki lengur umræðuefnið. Þeir sætta sig ekki við að dagskrárvaldið sé ekki í höndum Ingu Sæland og stuðningsmanna hennar.