11.11.2020 9:32

Mælistika Brendans og Ísland

Ástæðan fyrir að ráðist var í að endursegja þessa löngu grein er einföld. Það skiptir meira máli að greina strauma og stefnur í stjórnmálum en ræða um niðurstöður skoðanakannana.

Undanfarið hafa hér birst fjórir pistlar, endursögn á grein sem Brendan O‘Neill, ritstjóri bresku vefsíðunnar spiked, birti á síðu sinni þar sem hann velti fyrir sér ástæðunum fyrir því að um 71 milljón kjósendur greiddu Donald Trump atkvæði sitt í forsetakosningunum 3. nóvember. Aðeins einn maður hefur fengið fleiri atkvæði, Joe Biden, sem sigraði Trump.

Ástæðan fyrir að ráðist var í að endursegja þessa löngu grein er einföld. Það skiptir meira máli að greina strauma og stefnur í stjórnmálum en ræða um niðurstöður skoðanakannana eða rífast um það eftir á hvort kosningar sem fóru fram á lögmætan hátt skili mönnum þeim sigri sem þeir væntu.

Trump getur persónulega vel við unað þótt hann tapaði, hann verður aðeins að minni manni með því að viðurkenna ekki ósigur sinn. Repúblikanar geta einnig vel við unað. Spóli þeir í því fari að kosningarnar eigi að ógilda vega þeir ekki aðeins að stjórnkerfi sem þeir ráða að verulegu leyti heldur einnig að eigin kjósendum og atkvæðum þeirra.

Þegar það er lesið er sem nú er fullyrt um kosningasvindl á bandarískum stjórnmálum og Biden hafi náð kjöri með brögðum, rannsaka þurfi málið og kalla menn í yfirheyrslur, minnir málflutningurinn á það sem demókratar sögðu þegar Hillary Clinton tapaði 2016, að Rússar hefðu tryggt Trump sigurinn. Um þetta hefur verið rifist í fjögur ár og risafjárhæðum og tíma varið í endalausar rannsóknir.

IStock-958742546-1024x563Deilur um bandarísk stjórnmál verða oft heitar hér á landi, raunar miklu ákafari en um stjórnmálaátök í einhverju Evrópulandi. Þetta er einn angi mikilla bandarískra áhrifa sem birtast auðvitað best í skemmtanaiðnaðinum. Þeir sem þar standa fremstir eða í bandarískum fjölmiðlum eru hluti elítunnar sem O‘Neill gagnrýnir hvað harðast fyrir utan háskólasamfélögin þar sem hann segir að innræting sé stunduð.

Sjáum við ekki merki um það sem O‘Neill segir hér á landi? Átökin um varaformann í Samfylkingunni í lok fyrri viku báru þessa merki. Þar fylkti skoðanamyndandi elíta sér í kringum Helgu Völu Helgadóttur sem tapaði vegna þess að meirihluti flokksmanna vildi leggja sitt af mörkum til að stöðva hana á leið til formennsku í flokknum.

Í umræðum um stöðu ríkisútvarpsins er gagnlegt að nota mælikvarða O‘Neills til að átta sig á átakalínum. Sé vikið gagnrýnisorðum að ríkisútvarpinu gengur elítuhópur fram með ódulbúnum stuðningi þessa fjölmiðlarisa í því skyni að brjóta alla gagnrýni á bak aftur og verja óbreytt ástand samhliða kröfu um auknar fjárveitingar til risans óseðjandi. Svo virðist sem nú síðast hafi hann ákveðið að framkvæma samning við menntamálaráðuneytið á þann veg að ráða eigin starfsmenn sem verktaka til að fullnægja kröfu um framlag til innlendrar dagskrárgerðar á vegum annarra en eigin starfsmanna!

Opinberar skýrslur eru birtar um sniðgöngu stjórnenda ríkisútvarpsins við lög og leikreglur. Þar á bæ hafa menn allar slíkar ábendingar að engu og snúa talinu að því að tekjur ríkisútvarpsins hafi minnkað og þær verði að tryggja. Tónninn er gefinn, fylgjumst með umræðunum á næstunni með mælistikuna frá Brendan O‘Neill í huga.