7.3.2019 10:00

Maduro nýtur vafa VG-varaþingmanns

VG tapar nú fylgi samkvæmt könnunum. Hvort Fjölni takist að rétta hlut flokks síns með þessari ræðu kemur í ljós.

Fjölnir Sæmundsson er varaþingmaður VG úr suðvesturkjördæmi. Hann situr nú á þingi, tók til máls um stjórn þingsins miðvikudaginn 6. mars og sagði:

„Ég hef undanfarnar vikur furðað mig á þeirri afstöðu utanríkisráðherra að lýsa yfir stuðningi við þingforseta í Suður-Ameríkuríki, í Venesúela, til að verða forseti. Ég hef reynt að fylgjast með fréttum og skil bara eiginlega ekkert í þessu máli. Í fyrsta lagi: Hvað vitum við um þennan mann sem fjölmiðlar segja núna að sé sjálfskipaður forseti Venesúela? Fréttir eru misvísandi um það hvort þarna hafi farið fram lýðræðislegar kosningar eða ekki. Ég óttast mest að upplýsingar okkar hér á Íslandi, og þar með talið hjá utanríkisráðherra, komi úr bandarískum fréttamiðlum.“

Juan Guaidó, forseti þjóðþings Venesúela, lýsti sig bráðabirgðaforseta 23. janúar. Nú hafa ríkisstjórnir meira en 50 landa viðurkennt hann sem slíkan. Ríkisstjórnir þriggja landa neita að styðja hann: Kína, Kúbu og Rússlands. VG-þingmaðurinn Fjölnir hallast að sjónarmiðum andstæðinga Guaidós, af ótta við Bandaríkin!

Index_1551952777589Nicolas Maduro.

Sama dag og Fjölnir liðsinnti sósíalistanum Nicolas Maduro skjólstæðingi Rússa og Kínverja á forsetastóli Venesúela gaf stjórn Maduros þýska sendiherranum 48 stundir til að koma sér úr landi. Sök hans var að hafa farið út á flugvöll við höfuðborgina Caracas mánudaginn 4. mars og tekið á móti Guaidó þegar hann sneri aftur til heimalands síns eftir frægðarför til annarra S-Ameríkuríkja.

Guaidó fór í ferðalag sitt þrátt fyrir bann Maduros sem hótaði honum handtöku við heimkomuna. Þýski sendiherrann fór hins vegar fyrir sendimönnum erlendra ríkja sem gengu með Guaidó í gegnum flugstöðina og tryggðu honum frjálsa för. Þarna voru sendimenn frá Argentínu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Ekvador, Frakklandi, Hollandi, Kanada, Portúgal, Rúmeníu, Síle og Spáni að sögn BBC.

Um leið og VG-þingmaðurinn lýsti vanþóknun á að íslensk stjórnvöld skipuðu sér í sveit með ríkisstjórnum þessara landa sagði hann:

„Ég hef efasemdir um forseta í mörgum löndum. Ég held t.d. að þingforseti Bandaríkjanna sé miklu betri manneskja en forseti Bandaríkjanna og yrði mun hæfari forseti en mér finnst ekki að Guðlaugur [Þ. Þórðarson utanríkisráðherra] eigi að hringja í konuna og segja henni það.“

VG tapar nú fylgi samkvæmt könnunum. Hvort Fjölni takist að rétta hlut flokks síns með þessari ræðu kemur í ljós. Um þrjár milljónir manna hafa lagt á flótta undan sósíalisma Maduro-stjórnarinnar í Venesúela. Taki VG að sér málsvörn Maduros hér á landi, er líklegt að stuðningsmönnum flokksins fækki enn frekar.