Madeira og sagan af hjörtum Karls I. keisara og Zitu
Kistan bíður Karls ef líkamsleifar hans fást fluttar frá Madeira. Veraldleg yfirvöld og kirkjan á eyjunni hafa hins vegar ítrekað hafnað tilmælum um slíkan flutning og leggja áherslu á að keisarinn hvíli á helgum stað tengdum síðustu dögum hans.
Karl I. sem varð 1916 síðasti keisari Austurríkis og konungur Ungverjalands (sem Karl IV.), missti völd sín í nóvember 1918 þegar keisaradæmið leystist upp. Hann sagði sig frá þátttöku í málefnum ríkisins en taldi sig áfram bundinn af guðlegu umboði keisarans.
Við krýningu Karls I. keisara árið 1916.
Árið 1921 reyndi hann tvisvar árangurslaust að endurheimta ungversku krúnuna. Bretar og Frakkar, evrópsku sigurveldin í fyrstu heimsstyrjöldinni, töldu hann ógna stöðugleika í Mið-Evrópu og ákváðu að senda hann í fjarlæga útlegð til Madeira.
Hann kom þangað í nóvember 1921 ásamt Zitu keisaraynju og börnum þeirra sjö. Zita var aðeins 29 ára og gekk með áttunda barn þeirra. Fyrsta veturinn á Madeira fékk Karl I. lungnabólgu og andaðist 1. apríl 1922 aðeins 34 ára að aldri.
Eftir sálumessu 4. apríl 1922 var Karl lagður til hinstu hvílu við Maríualtari í kirkjunni Nossa Senhora do Monte fyrir ofan Funchal, höfuðstað Madeira. Þar varð gröfin fljótt að helgum dómi. Jóhannes Páll páfi II. lýsti Karl sælan (Beatus Carolus Austriae) árið 2004. Er „sæll“ fyrra stigið í ferlinu að verða viðurkenndur sem heilagur (sanctus). Eftir helgun páfa sækja sífellt fleiri pílagrímar að kistu Karls. Þúsundir koma ár hvert til að votta honum virðingu, einkum á dánardegi hans 1. apríl og minningardegi hans 21. október.




Myndirnar segja sína sögu. Styttan er við kirkjuna og innan dyra er kista keisarans með virðingartáknum.
Í Vín hefur verið gerð koparkista í Kapúsínakryptunni, þar sem keisarar Habsborgar hafa verið grafnir frá 17. öld. Kistan bíður Karls ef líkamsleifar hans fást fluttar frá Madeira. Veraldleg yfirvöld og kirkjan á eyjunni hafa hins vegar ítrekað hafnað tilmælum um slíkan flutning og leggja áherslu á að keisarinn hvíli á helgum stað tengdum síðustu dögum hans. Þá líti Madeirabúar á hvílustað Karls sem hluta af trúarlegri og menningarsögulegri arfleið sinni auk þess sem um sé að ræða vitnisburð um átakasögu í Evrópu sem ekki eigi að afmá.
Að sið Habsborgara var hjarta Karls lagt í silfurskrín sem Zita ekkja hans varðveitti sjálf áratugum saman. Hún klæddist sorgarbúningi það sem eftir lifði ævi hennar. Hún flutti frá Madeira og var síðan með börnunum víða í útlegð, m.a. á Spáni, í Belgíu, í Bandaríkjunum og Kanada. Hún helgaði líf sitt minningu Karls og vann að því að kirkjan viðurkenndi trúfesti hans og fórnfýsi.
Eftir aðra heimsstyrjöldina settist Zita að í Sviss en hún fékk ekki að snúa aftur til Austurríkis fyrr en 1982, þá 90 ára gömul. Hún lést 1989, 96 ára að aldri. Líkamsleifar hennar hvíla í Kapúsínakryptunni í Vín. Hún ber nú kirkjulega virðingarheitið Zita, þjónn Guðs, (Serva Dei Zita) og kann að fá frekari viðurkenningu kirkjunnar fyrir trúfesti sína og hollustu.
Árið 1970 sneri Zita sér til Muri-klausturs í Sviss í leit að varanlegum hvílustað fyrir hjarta keisarans. Klaustrið hafði verið stofnað af forfeðrum Habsborgara árið 1027 og var þar helsti grafreitur ættarinnar þar til hún settist að í Austurríki. Þótt klaustrið hefði verið lagt niður á 19. öld, var kirkjan árið 1941 færð til kaþólsku sóknarinnar í Muri, sem síðan starfaði með Benediktinamunkum Muri-Gries í Bolzano að varðveislu klaustursarfsins.
Eftir 1970 náðist samkomulag um að í Loretókapellu gamla klaustursins í Muri yrði fjölskyldugrafreitur Karls og Zitu og beinna afkomenda þeirra en ekki annarra Habsborgara. Árið 1971, eftir endurbætur á kapellunni, fól Zita klaustrinu hjarta Karls til varðveislu. Silfurskríninu með hjartanu var komið fyrir í marmarahólfi aftan við altarið.
Zita heimsótti kapelluna ár hvert á dánardegi Karls. Þegar Zita lést 14. mars 1989 var hún fyrst lögð í Loretókapelluna en síðan flutt til Vínar og grafin í Kapúsínakryptunni. Sama ár var hjarta hennar fært til Muri og lagt beint fyrir neðan hjarta Karls. Á plötu við altarið stendur: „Bak við þetta altari nýtur nú í heilagrar hvíldar langþjáð hjarta hennar hátignar keisaraynjunnar og drottningarinnar Zitu … sameinað hjarta eiginmanns hennar, Karls I. Austurríkiskeisara, sem sneri aftur til skapara síns á Madeira 1. apríl 1922.“
Þarna eru hjörtun sameinuð í gömlu klausturkappellunni í Muri.