30.8.2018 10:12

Macron áréttar ást sína á Frakklandi

Áður en Macron hélt frá Kaupmannahöfn flutti hann ræðu á samkomu Frakka í Danmörku. Hann bar þar lof á Dani. en gagnrýndi eigin þjóð.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti lauk í gær (29. ágúst) 36 tíma dvöl sinni í Danmörku og hélt til Finnlands í opinbera heimsókn.

Macron leggur áherslu á að ræða varnar- og öryggismál bæði í Kaupmannahöfn og Helsinki. Hann vill að Evrópumenn auki sjálfsstjórn eigin varna, þeir geti ekki lagt allt sitt traust á Bandaríkjamenn.

Danir hafa fyrirvara á varnarsamstarfi á vettvangi ESB. Frá honum verður ekki horfið nema það sé samykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrirvarinn er frá árinu 1993 þegar Danir greiddu þjóðaratkvæði um aðild að Maastricht-samkomulaginu. Þeir samþykktu aðildina með þremur fyrirvörum: gagnvart evrunni, gagnvart samstarfi á sviði lögreglu- og dómsmála og gagnvart samstarfi á sviði hermála.

Tilraun var gerð til að fá Dani til að falla frá fyrirvörunum. Hún mistókst. Danskir stjórnmálamenn hika við að reyna slíkt að nýju. Margir þeirra, t.d. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, vilja þó losna við fyrirvarana. Ítrekaði Løkke það í tilefni af heimsókn Macrons.

Xvm4137951c-ac1c-11e8-af73-6caf6029776eEmmanuel Macron Frakklandsforseti flytur ræðu í Kaupmannahöfn.

Áður en Macron hélt frá Kaupmannahöfn flutti hann ræðu á samkomu Frakka í Danmörku. Hann bar þar lof á Dani. Það sem unnt væri að gera tengdist menningu þjóðar og sögu hennar. Danir væru „lúthersk þjóð“ sem hefði tekið breytingum undanfarin ár, þeir væru ekki alveg eins og le Gaulois réfractaire au changement! Gallar sem stæðu gegn breytingum!

Orðin le Gaulois réfractaire hafa vakið hneykslun margra í Frakklandi, nú hafi Macron í þriðja sinn talað niður til eigin þjóðar í ræðu erlendis. Í Rúmeníu hafi hann sagt Frakka „fyrirlíta umbætur“ og í Aþenu hafi hann kallað Frakka „iðjuleysingja“. Þingmaður í vinstri flokknum La France insoumise, Óbugað Frakkland, sakar forsetann um að sýna Frökkum „hroka og fyrirlitningu“.

Á blaðamannafundi í Helsinki síðdegis í dag (30. ágúst) sá Emmanuel Macron ástæðu til að bregðast við harðri gagnrýni stjórnarandstöðunnar og í athugasemdum á samfélagsmiðlum við orðum sínum, hann hefði með þeim „gert að gamni sínu“. Menn yrðu að geta skilið sig frá athugasemdaliði samfélagsmiðlanna. Þá sagði Frakklandsforseti: „Ég elska Frakkland og Frakka, um það þarf enginn að efast...“