Lygi og lágkúra fyrir Ingu
Þetta segir ráðherrann ekki í ógáti heldur af þeim ásetningi að sverta andstæðinga með röngum áburði og lygi. Vörn ráðherra fyrir Ingu Sæland og ríkisstjórnina hæfir lágkúru málstaðarins.
Umræðum um stöðu félagasamtakanna Flokks fólksins lauk ekki með því að Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, heimilaði félagi Ingu Sæland að eiga oftekið fé úr ríkissjóði.
Enn er mörgum spurningum ósvarað. Tvær fréttir eru um rangstöðu Flokks fólksins í Morgunblaðinu í dag.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir móttöku á kæru Samtaka skattgreiðenda. Í henni er þess krafist að meint brot stjórnmálasamtaka sem fengið hafa ofgreidda fjárstyrki úr ríkissjóði séu rannsökuð. Þá er þess krafist að héraðssaksóknari beiti þeim úrræðum sem lög um meðferð sakamála kveða á um, komi í ljós að refsilög hafi verið brotin.
Héraðssaksóknari sagði að verkefnastaða embættis síns og forgangsröðun réði því hvenær á málinu yrði tekið.
Undarlegt yrði ef mál sem snertir grunnstoðir ríkisstjórnarinnar lenti aftast á löngum málalista þessa embættis.
Í áliti Flóka Ásgeirssonar lögmanns fyrir fjármálaráðherra virðist gengið að því sem vísu, án þess að rök séu fyrir því færð, að Inga Sæland hafi verið í góðri trú þegar hún tók við ofteknu fjármununum.
Við blasir af orðum Ingu sjálfrar að svo var ekki. Hún vissi að farið var á mis við lögin en gerði ekkert í því þar sem hún fékk peningana. Það var ekki fyrr en umræður hófust um rekstur hennar á félagi sínu á kennitölu sem hún ein gat notað að athygli beindist að því hvers kyns var og brást Inga þá við með að boða landsfund í skrifstofu sinni 22. febrúar 2025 til að uppfylla lögformlegar kröfur í von um að halda ekki aðeins í ofteknar 240 m. kr. heldur að fá einnig 70 m. kr. í ár
Hún skapaði sér algjöra sérstöðu meðal flokka á alþingi. Sérstaðan leiðir hins vegar til skipulagðrar viðleitni Daða Más ráðherra og annarra ráðherra til að setja aðra flokka í sömu skúffu og Ingu. Afstæðisáróðurinn stenst ekki skoðun.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).
Hagfræðingurinn Erna Bjarnadóttir, kjósandi á Suðurlandi, hefur sent erindi til Persónuverndar til að fá úr því skorið hvort félag Ingu hafi verið stjórnmálasamtök fyrir kosningarnar haustið 2024 og þar með átt rétt á rafrænum aðgangi að kjörskrá hjá Þjóðskrá.
Morgunblaðið spurði Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra hvort fleiri sérréttindi stjórnmálasamtaka en opinber fjárframlög væru upphafin væri skráningu félaga ábótavant; hvort Flokkur fólksins nyti sérréttindanna frekar en önnur almenn félagasamtök.
Dómsmálaráðherra tók annan pól í hæðina en Inga Sæland og sagði Flokk fólksins víst vera stjórnmálaflokk. Þorbjörg Sigríður vildi svo koma höggi á aðra flokka Ingu til réttlætingar. Dómsmálaráðherra lét ranglega að því liggja að fyrir kosningarnar hefðu Sjálfstæðisflokkur og sósíalistar verið í sömu stöðu og Inga.
Þetta segir ráðherrann ekki í ógáti heldur af þeim ásetningi að sverta andstæðinga með röngum áburði og lygi. Vörn ráðherra fyrir Ingu Sæland og ríkisstjórnina hæfir lágkúru málstaðarins.