8.12.2018 10:14

Lygavefurinn gliðnar hjá Trump

Framganga Trumps í garð Muellers minnir á hvernig ráðist hefur verið á lögreglu og saksóknara hér á landi.

Lygavefurinn í kringum Donald Trump miðar að því sama og einkenndi framgöngu þeirra sem lýst er af Þórði Snæ Júlíussyni í bók hans Kaupthinking: að fela slóð aðalmannsins. Úti á vellinum hafa menn gengið erinda höfuðpaursins og logið endalaust í blekkingarskyni.

Í gær (föstudaginn 7. desember) birtu á saksóknarar í New York og starfsmenn sérstaka saksóknarans Roberts Muellers ákæruatriði á hendur Michael Cohen sem var um árabil einkalögfræðingur Trumps.

Cohen játaði í ágúst að hann hefði gerst sekur um sex alríkis-lögbrot, þar á meðal skattsvik, brot á reglum um fjármögnun kosningabaráttu og greiðslur þöggunarfjár til kvenna til að þær segðu ekki frá samskiptum sínum við Trump. Fyrir rúmri viku sagðist Cohen hafa gerst sekur um að ljúga fyrir þingnefnd um misheppnuð fjárfestingaráform Trump-fyrirtækisins í Rússlandi.

Á árinu 2016, kosningaárinu í Bandaríkjunum, var Cohen í sambandi við menn innan Kremlar til að fá fyrirgreiðslu vegna áhuga á að Trump-skýjakljúfur yrði reistur í Moskvu. Cohen hefur einnig látið sérstökum saksóknara í té upplýsingar um tengsl Rússa við kosningastjórn Trumps.

44894711_303Donald Trump og Paul Manafort, formaður kosningastjórnar hans.

Í öðru máli hefur Mueller lagt fyrir dómara gögn sem varða lögbrot Paul Manaforts, formanns kosningastjórnar Trumps. Þar kemur fram að Manafort hefur margoft logið að starfsmönnum sérstaks saksóknara um tengsl sín við rússnesk-úkraínska stjórnmálaráðgjafann Konstantin Kilimnik og samskipti sín við embættismenn stjórnar Trumps.

Til þessa hafa Mueller og menn hans næsta lítið eða ekkert gefið upp um árangur 19 mánaða rannsókna sinna. Gögn þeirra nú sýna að full ástæða er til að lögregla og saksóknarar greiði úr lyga- og blekkingarvefnum í kringum Trump.

Framganga Trumps í garð Muellers minnir á hvernig ráðist hefur verið á lögreglu og saksóknara hér á landi. Þórður Snær segir lítillega frá því í bók sinni. Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi (2011) rek ég slíkar árásir af hálfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Baugsmanna og álitsgjafa þeirra á árunum 2002 til 2008.

Trump er sérstaklega vanstilltur í færslum sínum á Twitter núna og árásir hans á Mueller og menn hans eru jafnvel svæsnari en oft áður. Föstudaginn 7. desember lét Trump ekki við það sitja að saka Mueller um nornaveiðar og vanhæfi heldur sagði að Rudy Giuliani, lögfræðingur sinn mundi svara skýrslu Muellers. „Við munum leggja fram meiriháttar skýrslu sem andsvar við Mueller-skýrslunni,“ sagði forsetinn.

Armur réttvísinnar nálgast óðfluga forsetaskrifstofuna í Hvíta húsinu.