Lygavefur Sólveigar Önnu
Undrun sætir hve margir forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar eru tvístígandi og vandræðalegir þegar framgöngu Sólveigar Önnu ber á góma.
Starfshættir Sólveigar Önnu Jónsdóttur í stéttarfélaginu Eflingu eru kynntir lesendum Fréttablaðsins í einstæðu samtali Bjarkar Eiðsdóttur við Agnieszku Ewu Ziolkowsku í blaðinu í dag, 30. apríl.
Þegar Sólveig Anna hrökklaðist frá sem formaður Eflingar haustið 2021 tók Agnieszka Ewa Ziolkowska við formennskunni og hélt félaginu gangandi þar til Sólveig Anna náði aftur völdum snemma árs 2022. Þriðjudaginn 12. apríl síðastliðinn fékk Agnieszka síðan uppsagnarbréf frá stjórn Eflingar rétt eins og aðrir 40 starfsmenn verkalýðsfélagsins. Starf hennar sem varaformanns á skrifstofu félagsins hefur verið launað eins og formannsins. Uppsögn hennar tekur gildi 1. maí 2022 á baráttudegi verkalýðsins.
Agnieszka Ewa Ziolkowska, varaformaður Eflingar,
Undrun sætir hve margir forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar eru tvístígandi og vandræðalegir þegar framgöngu Sólveigar Önnu ber á góma. Berjist þeir fyrir „réttlæti“ Sólveigar Önnu sem Agnieszka lýsir hefur orðið tapað merkingu sinni í orðabók verkalýðshreyfingarinnar.
Eftir lestur viðtals Bjarkar sjá allir að afsakanir um að fastar sé sótt að Sólveigu Önnu en öðrum, sem reka starfsmenn úr þjónustu sinni, eiga ekki við nein rök að styðjast. Það getur einfaldlega enginn nema sá sem starfað hefur undir handarjaðri hennar, hvort heldur sem kjörinn fulltrúi með skýrt umboð eða launamaður á skrifstofu, lýst sambærilegum samskiptum. Þau eru svo langt frá því sem eðlilegt er – raunar of langt til að unnt sé að trúa því nema vegna þess að Agnieszka Ewa Ziolkowska ákveður að leggja spilin á borðið og taka því sem verða vill eins og hún hefur greinilega gert af hugrekki og dugnaði oftar í lífi sínu.
Fyrir Agnieszku vakti að auka áhrif erlendra aðila í Eflingu enda er meirihluti félagsmanna, 52%, af erlendu bergi brotinn, þar af 22% Pólverjar. Þótt Sólveig Anna láti gjarnan eins og hún beri hag erlendra félagsmanna sérstaklega fyrir brjósti vill hún ekki hafa fulltrúa þeirra nálægt sér við stjórn félagsins.
Í sósíalískri/kommúnískri hugmyndafræði Sólveigar Önnu er ekki rúm fyrir andmæli eða málamiðlun, hreinsanir einar duga. Lygavefur er notaður til að ýta andstæðingum til hliðar. Frásögnin minnir á lýsingar frá stalínstímanum.
Agnieszka Ewa Ziolkowska er rafeindatæknir að mennt með sérhæfingu í rekstri tölvukerfa. Hún fann fyrir tilviljun að Andri Sigurðsson, skjólstæðingur Sólveigar Önnu, fékk greiddar 23 milljónir kr. fyrir gerð vefsíðu Eflingar. Áður hafði öllum brögðum verið beitt til að halda Agnieszku frá vefsíðugerðinni. Nú segir hún:
„Mér fannst upphæðin undarlega há og fór að spyrja spurninga innanhúss. Þar með lak fréttin til fjölmiðla. Þegar ég svo skoðaði fundargerðir hafði það aldrei verið samþykkt að ráða fyrirtæki hans. En eins og Sólveig sagði við mig á erfiðum fundi okkar 2020: Sannleikurinn skiptir engu – þetta er pólítík.“
Einmitt! Pólitíkin en ekki sannleikurinn réð upphrópunum á alþingi þessa vikuna. Með lygum Sólveigar Önnu er Agnieszka Ewa Ziolkowska útilokuð. Sannleikurinn er kæfður með upphrópunum og svikabrigslum.