Lygar í útlendingamálum
Þeir sem vilja breytta stefnu í útlendingamálum eiga ekki að láta stjórnast af lygum andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.
Þegar rætt er um útlendingamál hér blasir við að þeir sem vilja viðhalda óbreyttu ástandi hika ekki við að fara með rangt mál, hinir sem fikra sig frá stuðningi við stefnu öfgasamtakanna No Borders – Engin landamæri – gera það með svívirðingum í garð Sjálfstæðisflokksins. Þetta á ekki síst við um samfylkingarfólkið sem tekst nú á um það innan eigin flokks hvort styðja eigi útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem verður til fyrstu umræðu á alþingi í dag, 4. mars.
Frumvarpið hefur verið á döfinni í nokkrar vikur og legið á samráðsgátt stjórnvalda auk þess sem ríkisstjórnin hefur mótað og kynnt heildstæða útlendingastefnu. Þrátt fyrir þetta og stuðningsyfirlýsingar Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, við meginmarkmið frumvarpsins er afstaða flokksins óljós.
Í frumvarpinu sem rætt er núna í dag felst fyrsta meginbreytingin á útlendingalögunum síðan árið 2016 þegar samþykkt voru lög sem reist voru á samstöðu allra flokka í þverpólitískri nefnd. Sagan geymir mörg dæmi um að svo víðtæk samstaða á alþingi um efni sem í raun eru dæmd til að valda ágreiningi lofar ekki góðu. Það hefur sannast í útlendingamálunum.
Í flugstöð Leifs Eiríkssonar (mynd: mbl.is).
Eitt meginstef laganna frá 2016 var að afnema afskipti ráðherra af afgreiðslu hælisumsókna og loka fyrir að kæra mætti ákvarðanir útlendingastofnunar til ráðherra. Kæruferlinu var breytt með því að koma á fót kærunefnd útlendingamála.
Einn þáttur lyganna í útlendingamálunum birtist í þessum orðum á Facebook nú um helgina: „Það var hins vegar mjög pólitísk ákvörðun hjá xD að veita fólki frá Venesúela aðstoð enda voru þau að flýja vonda sósíalista….“
Vinstrivefsíðan Heimildin birtir frétt í dag sem hefst á þeim orðum að útlendingastofnun hafi að sögn upplýsingafulltrúa stofnunarinnar tekið ákvörðunina um að veita nánast öllum Venesúelabúum sem komu hingað til lands á þriggja ára tímabili viðbótarvernd, ekki utanríkis- eða dómsmálaráðherra. Þetta er satt og rétt en ekki að um „mjög pólitíska ákvörðun hjá xD“ hafi verið að ræða. Það er einfaldlega lygi.
Ákvað útlendingastofnun þetta árið 2018 og gilti framkvæmdin í þrjú ár. Ísland varð eina Evrópuríkið sem veitti venesúelskum ríkisborgurum skilyrðislausa viðbótarvernd. Fljótlega eftir það er farið að auglýsa Ísland í Venesúela.
Í apríl 2021 hóf útlendingastofnun að synja umsækjendum frá Venesúela um vernd (4 mál). Kærunefnd útlendingamála felldi synjunina úr gildi. Gilti sú ákvörðun þar til nefndin sneri við blaðinu 29. september 2023.
Það er furðuleg árátta að klína öllu sem hefur miður farið í útlendingamálum á Sjálfstæðisflokkinn – eina ábyrga stjórnmálaaflið sem hefur af þunga beitt sér fyrir breytingum til batnaðar í málaflokknum á alþingi en átt við ofurefli að etja – þar til kannski núna. Þeir sem vilja breytta stefnu í útlendingamálum eiga ekki að láta stjórnast af lygum andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.