8.2.2020 13:25

Lýðskrum í skýrslubeiðni á alþingi

Að bera saman auðlindagjöld hér og úthlutun veiðiréttinda og stjórnarhætti í Namibíu leiðir ekki til neinnar skynsamlegrar niðurstöðu.

Frásögn í Kveik í sjónvarpinu af samskiptum Samherja við yfirvöld í Namibíu varð að lifibrauði stjórnarandstöðunnar sl. haust og enn heldur hún áfram að nærast á henni eins og birtist á alþingi fimmtudaginn 6. febrúar þegar skýrslubeiðni stjórnarandstæðinga undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, „um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi á grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu og í þeim skjölum sem RÚV fjallaði nýlega um í fréttaskýringaþættinum Kveik“ var samþykkt.

Að beiðninni stóðu auk flokksformannsins, flokkssystkini hennar, þingmenn Pírata, þingmenn Samfylkingarinnar og þingmaður utan flokka. Athygli vekur að í beiðninni er talað um „greiðslur fyrir veiðirétt“ og vísað til Fiskistofu hér á landi. Veiðiréttur á Íslandi skapast ekki með greiðslum. Ber það vott um algjöra vanþekkingu á kvótakerfinu eða vísvitandi blekkingu að halda því fram. Hér greiða fyrirtæki veiðigjald sem ræðst af ákveðnum lögbundnum skilyrðum eftir að þau hafa öðlast veiðirétt.

Samherji-3Að bera saman auðlindagjöld hér og úthlutun veiðiréttinda og stjórnarhætti í Namibíu leiðir ekki til neinnar skynsamlegrar niðurstöðu. Að leggja að jöfnu „upplýsingar frá Fiskistofu“ og skjöl sem fréttamenn ríkisútvarpsins hafa skoðað og nýta sem grundvöll opinberrar skýrslu til alþingis sýnir virðingarleysi við væntanlega skýrsluhöfunda. Skýrslubeiðendur telja „æskilegt að samráð verði haft við þingflokka um þá óháðu aðila sem fengnir verða í þessa þýðingarmiklu vinnu“. Forvitnilegt verður að vita hverjir taka að sér að vinna þetta undarlega verk: bera saman opinber gögn frá Fiskistofu og skjöl fréttamanna ríkisútvarpsins um tvo ólíka hluti.

Í greinargerð skýrslubeiðenda er leitast við að finna tengsl milli spilltra stjórnarhátta í Namibíu og lögbundinna veiðigjalda hér. Tilraunin til að tengja þetta tvennt felst í setningu þar sem segir að bein tengsl hafi verið „á milli þess sem útgerðirnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meiri hluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt“.

Þessi málatilbúnaður er svo öfgafullur að enginn þarf að undrast að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, hafi blöskrað. Hann sagði meðal annars á Facebook 7. febrúar:

„Fyrst má hér nefna að sjávarútvegsfyrirtæki bjóða ekki í veiðiheimildir á Íslandi heldur er lagt á þær veiðigjald sem er breytilegt eftir afrakstri veiða í einstökum tegundum. Það er því tómt mál að tala um hvað íslensk fyrirtæki eru ,,tilbúin að greiða".

Og hvað skyldi það yfirhöfuð segja okkur um íslenskt fiskveiðistjórnunarkerfi að tiltekið gjald sé greitt fyrir heimildir til að veiða hrossamakríl í Namibíu? Hvað á það yfirhöfuð að segja okkur um okkar kerfi?

Staðreyndin er að það segir okkur nákvæmlega ekki neitt. Að gefa annað í skyn er hreint lýðskrum.“

Þessi skýrslubeiðni er ótvíræð sönnun um að stjórnarandstaðan er gjörsamlega málefnasnauð og ófær um að ávinna sér traust.