5.11.2022 7:39

Lýðræðisveisla í Laugardal

Ræðan var efnismikil, gert var upp við fortíð og horft til framtíðar, áréttuð grunngildi Sjálfstæðisflokksins, þeim boðið aftur í flokkinn sem yfirgáfu hann vegna áhuga á ESB-aðild.

Laugardalshöllin var þéttsetin rúmlega 16.30 föstudaginn 4. nóvember þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, setti 44. landsfund flokksins með rúmlega klukkustundar ræðu sem einnig var streymt á vefsíðu flokksins. Þegar Bjarni gekk í ræðustólinn risu fundarmenn á fætur og hylltu hann með löngu lófataki sem var enn öflugra þegar hann hafði lokið ræðunni. Hvað eftir annað varð hann að gera hlé á ræðu sinni vegna lófataks.

1374941Bjarni Benediktsson flytur setningarræðu 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins 4. nóvember 2022 (mynd: mbl/Eggert Jóhannesson).

Fyrstu setningarræðu landsfundar flutti Bjarni árið 2010 þegar fundurinn var haldinn í 39. skipti. Vegna heimsfaraldursins hefur ekki verið unnt að efna til landsfundar sjálfstæðismanna síðan í mars 2018. Þá var Bjarni endurkjörinn formaður með 710 atkvæðum eða 96,2% gildra atkvæða. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hlaut kosningu til embættis varaformanns með 720 atkvæðum eða 95,6% gildra atkvæða. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var endurkjörin ritari með 664 atkvæðum eða 93,5% gildra atkvæða.

Þau Bjarni og Þórdís bjóða sig bæði fram til endurkjörs núna en Áslaug Arna hætti sem ritari flokksins þegar hún varð ráðherra og tók Jón Gunnarsson við af henni þar til hann varð ráðherra og nú bjóða þrjú sig fram í ritaraembætti. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- loftslags og orkumálaráðherra, býður sig fram gegn Bjarna í formannsembættið. Kosið verður á sunnudag en frambjóðendur flytja framboðsræður sínar í dag, laugardaginn 5. nóvember.

Af setningarræðum Bjarna á landsfundum 2010, 2011, 2013, 2015 og 2018 er þessi sú besta og sú sem hitti best í mark hjá landsfundarfulltrúum. Ræðan var efnismikil, gert var upp við fortíð og horft til framtíðar, áréttuð grunngildi Sjálfstæðisflokksins, þeim boðið aftur í flokkinn sem yfirgáfu hann vegna áhuga á ESB-aðild. Í ræðunni vék Bjarni að eigin högum, nefndi til sögunnar nokkra landsfundarfulltrúa sem voru hylltir. Risið var úr sætum til heiðurs Salóme Þorkelsdóttur 95 ára, fyrrv. forseta alþingis. Vikið var að andstæðingum flokksins, Kristrúnu Frostadóttur óskað til hamingju með formennskuna í Samfylkinguna og minnt á að hún var einu sinni varamaður í skólanefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ. Þannig var jafnt slegið á létta tóna og lýst samúð og dáðst að hugrekki þeirra sem berjast fyrir gildum frelsis og mannréttinda í Úkraínu.

Til fróðleiks fyrir fasta lesendur þessarar síðu og vita því um hlut höfundar hennar að gerð landbúnaðarstefnunnar Ræktum Ísland! skal þess getið að Bjarni nefndi það skjal okkar Hlédísar Sveinsdóttur sem mikilsvert framlag til að hefja íslenskan landbúnað á hærri stall. Áréttaði hann mikilvægi þeirra stefnumiða sem finna má í skjalinu.

Landsfundurinn fór þannig glæsilega af stað. Málefnavinna í aðdraganda fundarins hefur verið mikil og er henni fram haldið til loka fundarins á sunnudag.

Þetta er sannkölluð lýðræðisveisla eins og einhver orðaði það og verður niðurstaða hennar þjóðinni til heilla.