26.6.2023 10:38

Lýðræðisskrifstofa í vanda

„Alltaf gott að þegja og gera ekki neitt. Láttu eins og þetta komi þér ekki við.“ DV greindi fyrst frá atvikinu.

Þegar fundið var að framkvæmdum við byggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir um tveimur áratugum var svarað á þann veg að ómaklegt væri að ráðast þannig að starfsmönnum OR. Gagnrýnina átti að kæfa með því að breyta henni í árásir á starfsmennina en ekki þá sem stjórnuðu ferðinni og sátu sjálfir í borgarstjórninni.

Það voru einkum framsóknarmenn í borgarstjórn sem köstuðu þannig ábyrgðinni á því sem miður fór á aðra. Hrákasmíðin sem stunduð var við gerð hússins dró dilk á eftir sér eins og kunnugt er. Stór hluti höfuðstöðvanna hefur nú verið endursmíðaður fyrir milljarða króna.

Rætt var um dagvistunarmál á fundi íbúaráðs Laugardals 12. júní. Tveir starfsmenn mannréttinda og lýðræðisskrifstofu borgarinnar ræddu gang fundarins sín á milli með símaskilaboðum á messenger­-smáforritinu og leiðir „til að forðast eða afvegaleiða spurningar“ ráðsliða og sagði annar þeirra meðal annars við hinn: „Alltaf gott að þegja og gera ekki neitt. Láttu eins og þetta komi þér ekki við.“ DV greindi fyrst frá atvikinu en sjá mátti samskipti starfsmannanna á YouTube. Þau hafa síðan verið fjarlægð þaðan.

IMG_7379Morgunn við ráðhús Reykjavíkur. 

Minnihlutanum í borgarstjórn var bannað að ræða málið á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 20. júní og fimmtudaginn 22. júní meinaði framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og verðandi borgarstjóri, Kolbrúnu Áslaugu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins, að leggja fram bókun vegna atviksins í íbúaráðinu 12. júní. Einar taldi bókunina fela í sér árás á starfsfólk mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar sem lýtur stjórn Önnu Kristinsdóttur sem var borgarfulltrúi Framsóknarflokksins á sínum tíma.

Í bókun sinni gagnrýndi Kolbrún að frá upphafi hefði „íbúaráðum ekki verið sýnd nægjanleg virðing af borgaryfirvöldum“ og taldi þau til marks um sýndar-samráð vegna þessa staðfesta dæmis um hvernig starfsmenn léku sér að ráðsmönnum og gerðu allt sem þeir gætu „til að vængstýfa íbúaráðið“.

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, segir réttilega í grein á visir.is föstudaginn 23. júní að „þessi kúltur“ að skella skuldinni á starfsmenn borgarinnar ætti „uppruna sinn að rekja til þeirra stjórnmálamanna meirihlutans sem hafa síðasta áratug, trekk í trekk, sent embættismenn til að svara fyrir mál sem borgarfulltrúarnir sjálfir bera pólitíska ábyrgð á“.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, sagði það „leið mistök“ að sannreyna mátti þessa afstöðu borgarstarfsmanna til málsmeðferðar í íbúaráðinu og um „einkasamskipti“ hefði verið að ræða!

Í frétt af atvikinu á dv.is eru starfsmenn borgarinnar nafngreindir. Þar kemur fram að eftir fundinn í íbúaráðinu hrósaði starfsmaðurinn sem sat fundinn sigri, hann hefði komist undan öllum spurningum um dagvistunarmál með eftirfarandi orðum: „Sagði bara don't shoot the messenger and don't hate the player.“

Hvort töluð sé enska á fundum íbúaráðsins kemur ekki fram en samkvæmt fréttum stendur til að Anna Kristinsdóttir hitti íbúaráðið í dag, 26. júní, til að útskýra málið. Hvort eitthvað megi bóka á fundinum kemur í ljós.