28.5.2018 10:12

Lýðræðisleg gróska

Súlurnar eru að jafnaði hæstar við D-lista Sjálfstæðisflokksins í stærstu bæjarfélögunum sem kynnt eru til sögunnar á þessari blaðsíðu.

Sjá má í sjónhendingu með því að skoða myndina sem ég birti hér með og er úr Morgunblaðinu í dag (28. maí) hvaða flokkur er öflugastur á landsvísu eftir kosningarnar.

Súlurnar eru að jafnaði hæstar við D-lista Sjálfstæðisflokksins í stærstu bæjarfélögunum sem kynnt eru til sögunnar á þessari blaðsíðu. Svipuð mynd birtist á síðunni við hliðina þar sem úrslit í minni sveitarfélögum eru kynnt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þessa öflugu stöðu þrátt fyrir klofning úr honum til hægri og vinstri en þó einkum vegna þess að þeir sem að klofningnum standa telja sig eiga greiðari leið til áhrifa með því að snúa sér beint til kjósenda frekar en fara að flokksreglum við val á framboðslista (einkennilegt hve þær reglur geta verið óþjálar – kannski eru þær þó aðeins blóarböggull?).

Hér birti ég í gær tölur um gott gengi sjálfstæðismanna í bændahéraðinu Rangárþingi þar sem meðaltalsfylgi í báðum sveitarfélögunum er yfir 50% og í Skaftárhreppi skammt fyrir austan fékk Sjálfstæðisflokkurinn 60,2% og bætti við sig 26,56% en Sól í Skaftárhreppi fékk 39,48%. Ágreiningur var á milli listanna þar um fyrirhugaða 9,3 MW virkjun í Hverfisljóti við Hnútu. Sjálfstæðismenn styðja virkjunaráformin en Z-listinn Sól í Skaftárhreppi leggst gegn framkvæmdum.

Upplýsingar af þessu tagi um stefnumál sem valda ágreiningi innan einstakra sveitarfélaga eru forvitnilegri fréttir en tölfræði um fjölda karla og kvenna í framboðum eða umræðuþáttum í útvarpssal.

Hjá ríkisútvarpinu búa menn í hverjum kosningum til eitthvert pólitískt fyrirbæri sem heitir „fjórflokkurinn“ og draga spekingslegar ályktanir um stjórnmálaþróunina með vísan til þess. „Fjórflokkurinn“ bauð hvergi fram að þessu sinni, hann hefur aldrei gert það. Þrátt fyrir það er boðið upp á frétt um að bæjarfulltrúum undir merkjum „fjórflokksins“ hafi fækkað um 18 miðað við kosningarnar 2014. Til er leikur sem heitir á ensku Trivial Pursuit, keppni í vitneskju um fánýta hluti. Mikið af kosningafréttum ríkisútvarpsins á erindi í slíkan leik sem uppfyllingarefni.

Vegna stjórnmálaþróunar í lýðræðisríkjum sem birtist í öfgafullum málflutningi til hægri og vinstri lýsa ýmsir spekingar áhyggjum yfir framtíð frjálslyndra lýðræðislegra stjórnarhátta. Kosningarnar hér laugardaginn 26. maí sýna að ástæðulaust er að hafa áhyggjur af slíkri þróun hér. Eini „einsmálsflokkurinn“ sem náði marktækum árangri var Sósíalistaflokkurinn, fóstraður af Gunnari Smára Egilssyni, handlangara auðmanna í aðdraganda hrunsins.