Lýðræði eða handvalið framboð
Hér er Miðflokkurinn á stigi „sterka mannsins“ sem telur sig til dæmis hafa umboð til að handvelja á framboðslistana. Samfylkingin ber sama svip.
Sjálfstæðismenn tóku lýðræðislegar ákvarðanir á fjölmennum kjördæmisráðsfundum um fjóra framboðslista af sex sunnudaginn 20. október. D-listar eru enn í mótun Reykjavíkurkjördæmunum tveimur en þó liggur fyrir að ráðherrarnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson verða efst í kjördæmunum í suðri og norðri.
Mikið er í húfi að vel takist til við skipan listanna í Reykjavík því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt verulega undir högg að sækja í höfuðborginni miðað við það sem áður var.
Sjálfstæðismenn í SV-kjördæmi ákveða framboðslista 20. október 2024 (mynd: mbl.is/Ólafur Árdal).
Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti sunnudaginn 20. október að hún hefði ákveðið að ganga til liðs við Miðflokkinn og ætlaði að skipa efsta sæti á lista hans í öðru hvoru kjördæmanna í Reykjavík.
Okkur sem höfum stutt hana sem málsvara sjálfstæðisstefnunnar kemur þetta spánskt fyrir sjónir. Tilflutningurinn minnir aðeins á að í stjórnmálastarfi getur allt gerst.
Nú virðist keppikefli Miðflokksins að skipa sér til hægri við Sjálfstæðisflokkinn og feta í fótspor nýgræðinga í flokkaflórunni, til dæmis í Bretlandi og Þýskalandi.
Flokkar til hægri við mið-hægriflokka hafa lengi starfað annars staðar á Norðurlöndum. Starfið innan þeirra snerist í upphafi um „sterka manninn“. Hann hafði ráð flokksmanna í hendi sér þar til honum var kippt úr sambandi í takti við lýðræðislega þróun flokkanna.
Hér er Miðflokkurinn á stigi „sterka mannsins“ sem telur sig til dæmis hafa umboð til að handvelja á framboðslistana.
Nýja Samfylkingin undir forystu Kristrúnar Frostadóttur ber öll merki flokks þar sem gamlar lýðræðislegar leikreglur eru taldar standa í vegi fyrir að nýr formaður geti sett svip sinn á flokkinn með því að raða á lista. Tilkynnt hefur verið að Víðir Reynisson lögreglumaður og Alma Möller landlæknir verði í efstu sætum lista flokksins í Suðurkjördæmi og SV-kjördæmi. Aðrir hafa fallið frá boðuðum áformum um að sækjast eftir forystusætum þar.
Þá berast fréttir um að ónafngreindur aðili hafi keypt könnun hjá fyrirtækinu Prósent til að kanna hug kjósenda í Reykjavík til þingframboðs Dags B. Eggertssonar, fyrrv. borgarstjóra, fyrir Samfylkinguna. Fylgdi fréttunum að Dagur B. hafi fallið á prófinu.
Jóhann Páll Jóhannsson skipar nú efsta sæti Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæminu en Kristrún Frostadóttir flokksformaður í hinu. Jóhann Páll hringdi á sínum tíma í Kristrúnu og bauð henni þetta sæti á framboðslistanum.
Leiða má líkur að því að könnun Prósentu á vinsældum Dags B. sé liður í röð ákvarðana um framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Á vefsíðu flokksins segir ekkert um hvernig staðið verði að vali á framboðslista hans. Þögnin um það bendir til að fundað sé um fólk á lista í bakherbergjum án víðtækrar þátttöku flokksmanna.