6.6.2018 9:58

Lars Løkke boðar harða útlendingastefnu í þjóðhátíðarræðu

Í gær minntust Færeyingar og Grænlendingar þess að nákvæmlega 65 ár voru liðin frá því að lönd þeirra hættu að vera nýlendur Dana.

Stundum sést því haldið fram að Ísland hafi verið nýlenda Dana. Þessi misskilningur er lífsseigur. Ætti að leggja sérstaka áherslu á að leiðrétta hann í ár þegar minnst er 100 ára afmælis fullveldisins. Ísland var „biland“ – hjáland – í sambandi við danska kónginn og eftir að hann afsalaði sér einveldi á fyrri hluta 19. aldar og kölluð voru saman ráðgjafaþing konungs vildu Íslendingar ekki sætta sig við að sitja á þingi Eydana heldur kröfðust endurreisnar alþingis. Gekk það eftir.

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra flytur þjóðhátíðarræðu í Árósum.

Í gær, þriðjudaginn 5. júní var þjóðhátíðardeginum, Grundlovsdagen, stjórnarskrárdeginum, fagnað í Danmörku. Þá minntust Færeyingar og Grænlendingar þess að nákvæmlega 65 ár voru liðin frá því að lönd þeirra hættu að vera nýlendur Dana. Það gerðist með breytingu á dönsku stjórnarskránni sem tók gildi 5. júní 1953.

Við það fengu nágrannaþjóðir okkar sömu stöðu innan danska ríkjasambandsins og aðrir íbúar þess, fram til þess tíma voru þær nýlenduþjóðir að dönskum stjórnlögum. Nú urðu íbúarnir danskir ríkisborgarar og fengu að kjósa tvo fulltrúa, hvor þjóð, á danska þingið í Kaupmannahöfn. Sjálfsstjórn þeirra hefur síðan aukist stig af stigi þótt fullt sjálfstæði sé ekki í sjónmáli.

Venja er í Danmörku eins og hér að forsætisráðherra flytji þjóðhátíðarræðu, á dönsku tala menn um grundlovstale og að þessu sinni kaus Lars Løkke Rasmussen að gera útlendingamálin að umtalsefni. Þau ber hátt í dönskum stjórnmálum og verða vafalaust meðal helstu kosningamálanna að ári. Í Danmörku leggja forystumenn stóru flokkanna áherslu á að skerpa og herða útlendingalöggjöfina og sporna við straumi þeirra sem fara ólöglega yfir landamærin. Þá vilja þeir að tekið sé á málefnum hælisleitenda af röggsemi og þeir séu fluttir úr landi sem hefur verið brottvísað.

Í ræðunni sagði Løkke að ríkisstjórnin vildi að komið yrði á nýju hæliskerfi til að draga úr þrýstingi á ytri landamæri Evrópu og auðvelda baráttuna við þá sem hafa fé af fólki fyrir að smygla því til álfunnar.

Forsætisráðherrann sagði að hann og danskir embættismenn hefðu rætt við fulltrúa stjórnvalda hóps evrópskra ríkja með „svipuð viðhorf“ um hvernig mætti koma á slíku kerfi.

Kjarni þessa nýja kerfis yrðu „sameiginlegar móttöku- og brottvísunarmiðstöðvar“. Hælisleitandi sem kæmi til Danmerkur yrði fluttur í miðstöð í öðru landi og umsókn hans afgreidd. Þaðan yrði hann sendur á brott yrði honum hafnað. Miðstöðvunum yrði valinn staður í löndum án sérstaks aðdráttarafls í augum hælisleitenda. Það flýtti fyrir að þeir sneru aftur til síns heima.