10.11.2020 9:52

Lokagrein um Trump og 71 milljón kjósenda – IV.

Ráðist var í endursegja og birta þessa löngu grein eftir Brendan O‘Neill hér vegna gruns um að hneykslunin vegna mikils fylgis Trumps mundi teygja sig inn í þá elítu hér á landi sem samsamar sig með þeim sem O‘Neill gagnrýnir mest.

Hér birtist fjórði og lokahluti endursagnar á grein sem Brendan O‘Neill, ritstjóri vefsíðunnar spiked í Bretlandi, birti 6. nóvember í tilefni af því að Donald Trump fékk rúmlega 70 milljón atkvæði í forsetakosningunum 3. nóvember.

Skilin á milli kjósenda Bidens og Trumps eru mjög skýr þegar litið er til málefna. Mikill meirihluti þeirra sem telja að efnahags- og atvinnulífið skipti mestu styður Trump, 81% en aðeins 16% kjósenda Bidens. Þegar litið er til kynþáttamála (e. racism) telja 78% kjósenda Bidens þau mál málanna en aðeins 19% kjósenda Trumps. Afstaðan til mikilvægis loftslagsmála birtist þannig að 86% kjósenda Bidens telja þau mikilvægust en aðeins 11% kjósenda Trumps. Um COVID-19-faraldurinn sögðu 83% kjósenda Bidens að hann væri „stjórnlaus“ en aðeins 15% kjósenda Trumps voru þeirrar skoðunar.

Brendan O‘Neill, ritstjóri vefsíðunnar spiked, segir þessar tölur ótrúlega upplýsandi. Kjósendur Trumps láti boðskap elítanna í lykilmálum lönd og leið. Þeir viti að takast verði á við þau en hafni heimsslitakenningunum og neiti að láta þær ráða för sinni eða atkvæði. Hann segir, að reyni maður að halda því fram innan bandarískra háskóla að kynþáttamál og loftslagsmál séu ekki stórmál sé maður rifinn á hol en ekki annars staðar í Bandaríkjunum, þar virðist málfrelsi eða að minnsta kosti skoðanafrelsi enn leyft.

O‘Neill segir að í þessum ólíku viðhorfum komi fram vilji fólks til að líta frekar á málefni, efnahag og atvinnu, en uppruna eða litarhátt og þröng þráhyggjumál elítunnar og stuðningsmanna hennar í nýja þekkingariðnaðinum. Hér birtist pópúlísk hreyfing svartra verkamanna, fólks af spænskum uppruna og hvítra án háskólamenntunar í byltingu gegn kverkatakinu sem elítur efri millistéttarinnar hafi á stjórnmálaumræðunni með þröngsýni sinni.

SJGLKZTKOVA4VJ6TPPCEFMPUIAAð viðhorf til efnahags- og atvinnumála séu svona ráðandi hjá stórum hópum fólks vekur mikla reiði hjá elítum að mati O‘Neills því að þar með sé hugsjónalegum yfirburðum þeirra ógnað. „Efnahags-pópulismi“ sé vinsælt hneykslunarefni margra álitsgjafa sem styðja Biden en þeir segi í krafti siðferðilegra yfirburða sinna að kynþáttahatur leynist þar að baki. Undir lok langrar greinar sinnar segir Brendan O‘Neill:

„Trump hefur tapað. En það sama má segja um þá sem stjórna and-Trumpismanum. Að ýmsu leyti er ósigur þessara ráðandi afla enn athyglisverðari. Þessar elítur líta þannig á að um 70 milljónir manna hafi sýnt sér forkastanlega óhlýðni með því að kjósa „hinn illa“, þetta fólk leyfi sér að efast um réttmæti skapadóms, sundrungariðju og ritskoðunar nýju elítanna, þetta sé í raun fjöldaógn við rétt þeirra til að stjórna og við hugsjónirnar í þágu eigin hagsmuna þeirra. Og þetta er rétt hjá þeim. Því að hinir ósigrandi, tugmilljónirnar sem hafa ekki ánetjast nýja rétttrúnaðinum eru sönnun þess að nýi popúlisminn lifir þrátt fyrir fall Trumps og að sjálfsvarnar boðskapur nýju elítanna nýtur ekki hljómgrunns hjá gríðarmiklum fjölda venjulegs fólks.“

Ráðist var í endursegja og birta þessa löngu grein eftir Brendan O‘Neill hér vegna gruns um að hneykslunin vegna mikils fylgis Trumps mundi teygja sig inn í þá elítu hér á landi sem samsamar sig með þeim sem O‘Neill gagnrýnir mest, álitsgjöfunum sem fjargviðrast yfir skoðunum annarra og hika ekki við að lýsa yfirlætisfullri, tilfinningaþrunginni andúð á þeim sem eru þeim ósammála. Þar er samfylkingarmaðurinn Illugi Jökulsson fremstur í flokki enda brást ekki að hann hrópaði upp yfir sig á vinstri-vefsíðunniStundinni: Eru 70 milljónir heimskar og vitlausar?