Lokadagur landsfundar
Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lýkur í dag. Gengið verður til formannskjörs um hádegisbilið og atkvæði verða kynnt í síðdegis.
Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lýkur í dag. Gengið verður til formannskjörs um hádegisbilið og atkvæði verða kynnt í síðdegis.
Nú þessa sunnudagsmorgunstund er verið að afgreiða tillögur um skipulagsbreytingar á flokknum. Málefnanefndir hafa starfað í aðdraganda landsfundar og verða tillögur þeirra afgreiddar ásamt stjórnmálaályktun.
Þá eru málstofur um ýmis efni. Það var til dæmis fjölmennt að morgni laugardags 5. nóvember þegar Bryndís Bjarnadóttir, sérfræðingur í netöryggismálum, stjórnaði umræðum okkar Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra um stöðuna í heimsmálum og þær áskoranir sem ríki heims standa frammi fyrir og snúa að öryggis- og varnarmálum.
Það vakti athygli að í ræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir viku minntist Kristrún Frostadóttir, nýkjörin formaður, ekki einu orði á stríðið í Evrópu og áhrif þess á öryggismál okkar Íslendinga á Norður-Atlantshafi, hún fordæmdi ekki heldur einu orði blóðuga framgöngu rússneska hersins gegn Úkraínumönnum.
Um 1900 manns eiga rétt til setu á landsfundinum og verður forvitnilegt að sjá hve margir kjósa í dag en frá klukkan 09.00 í morgun var unnt að ná í kjörgögn Áður en Laugaradalshöllin var opnuð hafði myndast löng biðröð við hana.
Atkvæði greidd á landsfundi sjálfstæðismanna (mynd xd.is).
Það er meira en að segja það að skipuleggja lýðræðislegan fjöldafund á borð við þennan og sjá til þess að á fundarstað sé allt til alls fyrir utan að tryggja að gengið sé frá öllu varðandi ályktanir og kosningar á þann veg að enginn efist um lögmæti þess sem gert er. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri flokksins, og samstarfsfólk hans í Valhöll hafa staðið vel að verki. Birgir Ármannsson, forseti alþingis, stýrir fundinn.
Sigurður Sigurðarson sem lætur meðal annar að sér kveða í netheimum segir á bloggi sínu laugardaginn 5. nóvember:
„Spennan er því sem næst áþreifanleg, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins um formannskosningu í Sjálfstæðisflokknum og átti við andrúmsloftið á landsfundinum. Líklega var það sami fréttamaður sem sagði í hádegisfréttunum á laugardeginum að formannskjörið væri aðalatriði fundarins. Hvort tveggja er bölvuð della, sett fram í anda slúðurfréttablaða.
Ég er á landsfundinum en hef ekki fundið fyrir spennunni. Hins vegar er afskaplega skemmtileg stemning meðal fólks. Mikið hlegið, fólk talar hátt, gamlir vinir og kunningjar faðmast og rifja upp gamlar minningar. [...]
Fyrst og fremst er landsfundurinn samkoma fólks með áþekkar lífsskoðanir og stefnu í stjórnmálum. Þessu næst er fundurinn stefnumarkandi og allir sem vilja geta haft áhrif. Ég sótti í gær fund um umhverfis- og samgöngumál. Hann sótti um tvö hundruð manns og hann var fjölmennari en aðalfundur ýmissa íslenskra stjórnmálaflokka. [...]
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er lýðræðisveisla. Þetta er ekki innantómur frasi heldur staðreynd. Raddir allra fá að heyrast, enginn er settur útundan en meirihlutinn ræður. Fundur tveggja þúsunda manna.“
Geri aðrir flokkar betur!