Lokað á óveðursmyndir
Forvarnir eru góðar en lokun landsvæða með því að stöðva eða banna umferð allra er stórt skref í hverju tilviki fyrir sig sem hlýtur að þurfa að tilkynna sérstaklega og rökstyðja.
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (dags. 20. des.) var sagt frá alþjóðavæðingu ljósmynda Ragnars Axelessonar (RAX) en landsfrægar myndir hans eru nú kynntar á sýningum um heim allan fyrir utan útgáfu bóka með þeim.
Ragnar Axelsson (RAX) (mynd: mbl.is),
RAX segist vinna að smíði bókar um norðurslóðalöndin átta, það er Bandaríkin, Kanada, Grænland, Ísland, Noreg, Svíþjóð, Finnland og Rússland. Þótt þau séu ólík eigi þau margt sameiginlegt fyrir utan að vægi norðurslóða í stóra samhengi heimsins eigi bara eftir að aukast. Hann eigi eftir að fara í fleiri ferðir til að taka myndir í bókina en þar verði veðrið tengiþráðurinn. Um Ísland segir RAX:
„Verst er að það verður alltaf erfiðara og erfiðara að mynda Ísland. Um leið og veður versnar kemur einhver í lúðrasveitarbúningi og stöðvar mig. Það þekktist ekki áður fyrr. Nú þarf fólk á einhverjum skrifstofum að hafa vit fyrir okkur sem ferðast höfum um landið þvert og endilangt og þekkjum það eins og lófann á okkur. Ég hef myndað öll eldgos á Íslandi síðan ég var 16 ára en hef ekki séð þessa skrifstofumenn þar. Nú verður alltaf erfiðara og erfiðara að mynda eldgos vegna takmörkunar á aðgengi meðan gosin eru í hámarki. Þessari forsjárhyggju hef ég hvergi kynnst nema á Íslandi. Vilja menn ekki að mannkynssagan sé skráð á Íslandi? [...]
Það má alveg mynda landið í sól og blíðu en það er bara ekkert varið í það. Maður þarf að fara inn í aðstæður eins og þær gerast verstar. Það er þetta sem er sárast af öllu – að geta ekki lengur farið um mitt eigið land.“
Þetta er athyglisvert sjónarhorn sem má rekja til opinberrar forsjár sem birtist til dæmis núna með gulum og appelsínugulum viðvörunum næstu sólarhringa vegna roks og rigningar. Forvarnir eru góðar en lokun landsvæða með því að stöðva eða banna umferð allra er stórt skref í hverju tilviki fyrir sig sem hlýtur að þurfa að tilkynna sérstaklega og rökstyðja.
Nú fyrst, rúmum 30 árum eftir snjóflóðið mikla í Súðavík, liggur fyrir 443 bls. skýrsla um það. Aðstandendur þeirra sem fórust í flóðinu höfðu lengi kallað eftir rannsókn á aðdraganda þess. Vildu þeir fá að vita hvers vegna ekki var varað við flóðinu, hvers vegna hús höfðu verið byggð á svæði þar sem snjóflóð höfðu fallið og hvers vegna snjóflóðavarnir hefðu ekki verið reistar, eins og til stóð.
Um þetta er fjallað í skýrslunni án þess að um endanleg svör sé að ræða. Í lögum um almannavarnir voru ákvæði um að rannsaka skyldi viðbrögð í almannavarnatilvikum en af óljósum ástæðum voru þessi ákvæði felld úr lögunum. Engin opinber úttekt liggur fyrir um almannavarnaaðgerðir vegna covid-19 eða jarðeldanna á Reykjanesi. Jafnt og þétt færa eftirlits- og bannvöldin sig hins vegar upp á skaftið. Nú er RAX bannað að ljósmynda óbyggðir í óveðri!
Að kvöldi 22. desember sýndi ríkissjónvarpið myndskeið sem kvikmyndasafnið varðveitir um jólahald fyrr á tímum. Í frásögn um myndskeiðin kom fram að í safninu væru aðeins til stutt brot sem sýndu snjó eða vetrarveður. Tækin hefðu ekki þolað útiveru í vondu veðri. Nú fá vanir menn með góð tæki ekki leyfi til að taka slíkar myndir vegna forsjárhyggju yfirvalda. Það er vandlifað.