25.3.2020 12:48

Lögreglurannsókn í Ischgl – Efling í öngstræti

Alþjóðlega athyglin sem að beinist að yfirhylmingunni í Ischgl kann að hafa fælingarmátt gagnvart öðrum annars staðar sem neita að horfast í augu við hættuna af því að leyna smitberum.

Lögreglurannsókn hófst þriðjudaginn 24. mars í Austurríki vegna ásakana um að af ásetningi hafi því verið leynt í skíðabænum Ischgl í Tíról að þar væri ein helsta uppspretta kórónasmits í Evrópu. Íslensk sóttvarnayfirvöld sendu frá sér viðvörun um þetta 5. mars og réttmæti hennar var síðan staðfest af Þjóðverjum, Norðmönnum og Dönum.

Sótt hefur verið að austurrískum yfirvöldum og óskað skýringa á því hvers vegna þau gripu ekki strax til aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar í skíðabænum. Strax í febrúar hafi vaknað grunur um að þar væri smitbæli.

Saksóknari í Innsbruck gaf fyrirmæli um lögreglurannsóknina til að sannreyna að þrátt fyrir grunsemdir um að starfsmaður á veitingastað væri smitaður af veirunni hefði það ekki verið tilkynnt til heilbrigðisyfirvalda.

„Ásakanirnar eru svo alvarlegar að það verður tafarlaust að hefja rannsókn vegna þeirra,“ er haft eftir talsmanni héraðsstjórnarinnar í Tíról í breska blaðinu The Daily Telegraph en blöð um alla Evrópu og víðar fylgjast náið með framvindu málsins.

Birt hafa verið sms-skilaboð sem þykja benda til þess að ráðamenn í Ischgl hafi 9. mars verið upplýstir um smitið en hvatt stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja til að þegja um það. Stöðum í Ischgl var ekki lokað fyrr en 13. mars, það er viku eftir að viðvörunin barst frá Íslandi.

200323075656-kitzloch-bar-austria-0313-exlarge-169Í alþjóðlegum fjölmiðlum er þessi mynd notuð í fréttum um pestarbælið í Ischgl.

Í blöðum segir að Ischgl sé vel þekkt fyrir næturskemmtanir að loknum skíðadegi. Árlega sé notaður gervisnjór til að lengja skíðatímann fram í maí og drykkju-leikir séu stundaðir fram undir morgun á krám staðarins. Einn leikurinn felist í því að ping-pong kúla gengur á milli manna sem keppa í að spýta henni í bjórglas.

Alþjóðlega athyglin sem að beinist að yfirhylmingunni í Ischgl kann að hafa fælingarmátt gagnvart öðrum annars staðar sem neita að horfast í augu við hættuna af því að leyna smitberum. Fréttir berast frá mörgum löndum um að beita verði lögregluvaldi og sektum til að farið sé að reglum yfirvalda um sóttvarnir.

Efling í öngstræti

Sólveig Anna Jónsdóttir í Eflingu og sósíalistarnir í kringum hana gengu fram af félagsmönnum sínum í verkfallsaðgerðum eins og við mátti búast. Efling samdi við Dag B. Eggertsson og Reykjavíkurborg og jafnframt greip Sólveig Anna til samúðarverkfalla í nágrannabæjum Reykjavíkur til að nota niðurstöðuna í Reykjavík til að berja á öðrum. Það misheppnaðist og þriðjudaginn 24. mars birtist tilkynning á vefsíðu Eflingar frestun verkfallsaðgerða frá með 25. mars hjá öllum Eflingarmönnum sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfus.

Sólveig Anna skýtur sé á bak við Covid-19 faraldurinn. Hún lætur þó ekki af hótunum sínum heldur segist ætla „að mæta fílefld í verkfallsaðgerðir innan nokkurra vikna, mögulega í umfangsmeiri og beittari mynd en hingað til“. Hún hreytir síðan í viðsemjendur sína: „Sveitarfélögin hafa hins vegar kosið að nýta sér faraldurinn á einstaklega ómerkilegan hátt til að hamla eðlilegum framgangi viðræðna.“

Ósvífni Sólveigar Önnu er söm við sig.