Logi rangtúlkar MDE-niðurstöðu
Yfirlýsing þingflokksformanns Samfylkingarinnar um að MDE telji að hér sé ekki tryggður réttur til frjálsra kosninga er enn eitt dæmið um hvernig reynt er að afvegaleiða umræður.
Finna má til með þeim sem tapa í kosningum með litlum mun. Þá hefur dreifing jöfnunarsæta hér í lítt gagnsæju kosningakerfi oft leitt til mikillar sálarangistar þeirra sem eru milli heims og helju í höndum talningarmanna. Endurtalningin í NV-kjördæmi eftir þingkosningarnar reyndi mjög á taugar þeirra sem áttu hlut að máli.
Einn þeirra var Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði. Hann var oddviti framboðslista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Hann var talinn alþingismaður fyrir endurtalninguna. „Þetta er náttúrulega ótrúlegt að upplifa þetta sem nýliði í þessu,“ sagði hann eftir að tölur og kosningakerfið ýtti honum til hliðar og bætti við: „Ég hef lagt allt mitt í þetta, allt mitt hjarta, sál og sparifé“. Það var ekki aðeins Guðmundur sem hafði fagnað heldur einnig forystusveit Viðreisnar sem taldi að með kjöri hans hefði flokknum tekist að sýna að hann væri ekki flokkur höfuðborgarsvæðisins.
Hér verður ekki rakið allt sem fór af stað vegna þess að Guðmundur og fleiri fengu ekki nógu mörg atkvæði til að komast á þing. Kvartaði Guðmundur ásamt fallkandídat Pírata, Magnúsi Davíð Norðdahl, til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strassborg.
Dómhús MDE ó Strassborg.
Niðurstaða MDE lá fyrir í gær (16. apríl). Þar kemur fram að ákvæði stjórnarskrárinnar um að alþingismenn eigi síðasta orðið um úthlutun kjörbréfa falli ekki að mannréttindasáttmála Evrópu.
Í þingræðu 16. apríl sagði Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, niðurstöðu MDE skýra: „Íslensk lög tryggja ekki réttinn til frjálsra kosninga, grundvallarforsendu lýðræðisins.“ Jóhann Páll Jóhannsson, samflokksmaður Loga, tók undir með honum. Óskiljanlegt er hvernig þingmennirnir komast að þessari niðurstöðu.
Flokkssystir þeirra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, boðaði að hún mundi taka niðurstöðu MDE til athugunar í nefndinni. Vonandi verður það ekki á grundvelli vitlausra ályktana samflokksmanna hennar heldur bíði formaðurinn úttektar sem unnið er að á vegum skrifstofu alþingis á MDE-niðurstöðunni að ósk Birgis Ármannssonar þingforseta.
Ekkert sem gert var í rannsóknarskyni þegar talningadeilan reis vegna úthlutunar á jöfnunarsætum og spjótin beindust réttilega að kjörstjórn NV-kjördæmis sætir gagnrýni MDE. Kjörbréfanefnd alþingis starfaði samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og að því finnur MDE.
Yfirlýsing þingflokksformanns Samfylkingarinnar um að MDE telji að hér sé ekki tryggður réttur til frjálsra kosninga er enn eitt dæmið um hvernig reynt er að afvegaleiða umræður um úrlausnarefni á stjórnmálavettvangi.
Á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu er skylda ábyrgra stjórnmálamanna að haga yfirlýsingum sínum og athöfnum í samræmi við það sem reist er á staðreyndum. Nóg er nú samt af öllu hinu sem á ekki við nein rök að styðjast en er haldið að okkur úr öllum áttum.